28.1.2007 | 20:10
Tækifæri RÚV ohf. leiðari Morgunblaðsins 25. janúar
Ég vil vekja athygli á leiðara Morgunblaðsins, fimmtudaginn 25. febrúar. Leiðarinn nefnist Tækifæri RÚV ohf. Leiðarahöfundur má varla vatni halda yfir fögnuði með þetta frumvarp og telur meginkosti þess að nú geti Páll Magnússon og hans samstarfsmenn endurskipulagt fyrirtækið. Þeir geti ráðið og rekið fólk að vild eða fært til í starfi. Leiðarinn skiptir sem sagt starfsfólki RÚV í tvo hópa annars vegar samstarfsmenn Páls og hina sem hægt er að losa sig við eða færa til. Leiðarinn gerir einnig mikið úr því að hve dauð og gamaldags stofnun RÚV er, en nú verði það rekið eins og fyrirtæki og það losni um þá miklu dynamik fyrir rekstur þess. Nú verði starfsfólkið ekki lengur ofverndað, en réttindi og starfsumhverfi fært til samræmist þess sem gerist hjá öðrum fyrirtækjum. Það óneitanlega hrollvekjandi að sjá blað eins og Morgunblaðið fagna skerðingu á réttindum starfsfólks RÚV. Er ohf.- væðingin fyrst og fremst til þess?
Leiðarahöfundurinn gerir einnig mikið úr því hve vel heppnuð hlutafjárvæðing annarra ríkisfyrirtækja hefur reynst.
Það er greinilegt að leiðarahöfundurinn var ekki í biðröðinni með jólapóstinn þar sem fólk úthúðaði starfsfólki Póstsins fyrir þjónustuna og féllu þar miður falleg orð, sem ekki er hafandi eftir. Starfsfólkið reyndi sitt besta, en var því miður alltof fátt og í mjög þröngri vinnuaðstöðu, sem er til skammar fyrir þessa þjónustu.
Ekki hefur leiðarahöfundurinn frétt af þjónustu Símans þar sem fólk hefur orðið að bíða dögum og jafnvel vikum saman eftir einföldum viðgerðum, sem áður tók dagpart að kippa í lag. Þjónusta Símans hefur fjarlægst fólkið því mörgum þjónustustöðvum hans út um land hefur verið lokað. Nú hafa gróðasjónarmið komið í stað þjónustusjónarmiða í rekstri þessa fyrirtækis.
Ekki hefur leiðarahöfundurinn heldur frétt af sífellt versnandi þjónustu fyrrverandi ríkisbanka út um land þar sem útibú hafa verið lögð niður, útlánaheimildir útibússtjóra verið takmarkaðar, þjónustugjöld hækkuð (ég hef frétt af að lánastofnanir eru farnar að taka allt að 5% lántökugjald og jafnvel 5% uppgreiðslugjald) og fleira í þeim dúr. Á sama tíma eru þessi fyrirtæki í bullandi útrás og græða vel.En aftur að leiðaranum og RÚV. Í lokin segir höfundur hans að nú geti RÚV hætt samkeppni og einbeitt sér að innlendri dagskrárgerð, textun fyrir heyrnardaufa, vandaðri fréttamennsku og menningarumfjöllun. Þetta láti einkastöðvarnar hjá líða.
Í þessari umræðu gleymist algerlega að RÚV er eina stöðin (rásir 1 og 2 ásamt sjónvarpinu) sem hefur lagt metnað sinn í að ná til allra landsmanna. Líka þeirra sem búa í afdölum, en þeir njóta aftur á móti engrar athygli einkastöðvanna. Þar er engin samkeppni um athygli. Kannske hefur þetta fólk líka gaman af bíómyndum, popptónlist, íþróttum eða sápuóperum í bland við vandaðar fréttir og menningaþætti. Hugum að því.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.