10.3.2007 | 23:31
Eru þjóðlendur þjóðareign
Undanfarna viku hefur hugtakið þjóðareign þvælst verulega fyrir í umræðunni um breytingu á stjórnarskránni. Hver lögspekingurinn á fætur öðrum hafa komið í fjölmiðla og bent á að þjóðin geti tæknilega ekki átt neitt því hún er ekki lögaðili. Í þessu sambandi er rétt að velta fyrir sér hver er munurinn á ríki og þjóð. Á þjóðin ríkið eða á ríkið þjóðina?? Eðlilegt að spurt er.
Hver á stofnanir á borð við Landspítala Háskólasjúkrahús, Ríkisútvarpið, Póstinn, Háskólann og fleiri stofnanir, er það ríkið eða þjóðin. Hingað til hafa Þingvellir verið taldir sem þjóðareign, sama má segja um Skaftafell, Hólastað og fleiri landeignir. En bíðið við þjóðin má ekki eiga þetta og hver á það þá, ríkið? Hver á ríkið?
Að undanförnu hefur ríkisstjórnin með fjármálaráðherra í broddi fylkingar staðið í málaferlum við bændur og aðra landeigendur. Í sumum tilfellum hafa þessir ráðamenn þjóðarinnar krafið landeigendur um verulegan hluta jarða sinna undir þeim formerkjum að þessi lönd skulu kallast þjóðlendur. Eiga þjóðlendur ekki að vera í eigu þjóðarinnar?? En þjóðin má ekki eiga neitt, en bændur eru lögaðilar og mega því eiga eitthvað, til hvers er þá barist? Er þetta kannske skýringin á að ríkisstjórnin ætlar að afhenda lögaðilanum Landsvirkjun nokkrar bitastæðar eignir, þar sem svo vill til að þar finnst einhver jarðhiti eða vatnsföll?
Eða eru þetta ekki bara allt saman ein stór tæknileg mistök?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.