Léleg þjónusta Icelandair (Flugleiða)

Ég brá mér á fund til Finnlands, nánar tiltekið Helsinki, nú í vikunni. Ferðin var skipulögð af Flugleiðum og var flogið í gegn um Kastrup til og frá Helsinki. Allt gekk vel til Helsingi og fundurinn tókst mjög vel. Flugið frá Helsinki til Kastrup var á tilsettum tíma og reiknaði ég með að allt væri í lagi með farangurinn, því hátt í klukkutími leið frá lendingu þangað til við áttum að fara í loftið aftur.

Þegar komið var til Keflavíkur, fór ég náttúrulega í gegn um Fríhöfnina og svo að farangursböndunum. Þá kom í ljós að taskan mín var ekki með. Ég bölvaði í hljóði yfir því að hafa sýnt þá tillitsemi að hafa ekki tekið hana með í handfarangri. En þar sem mér hefur alltaf ofboðið að sjá allt það dót sem er troðið í farangurshirslurnar í flugvélunum, ákvað ég að senda mína tösku með öðrum farangri.

Mér var bent á að fara að ákveðnu borði og tilkynna töskuhvarfið. Þar var þá löng biðröð, þar sem aðeins ein stúlka var að afgreiða. Þar voru m.a. ferðafélagar mínir frá Helsinki og hafði einn þeirra ekki fengið tösku sína fyrr en á heimferðardaginn, því hún varð eftir í Stokkhólmi á leiðinni út.

Afgreiðslan gekk afar hægt og fólkið var að sjálfsögðu mjög pirrað. Þegar ég var loks kominn út í gegn um tollhliðið, kom í ljós að rútan til Reykjavíkur, sem ég ætlaði að taka, var löngu farin, og sú næsta ekki fyrr en eftir tvo tíma. Mér var tjáð af starfsmanni að ég gæti bara tekið leigubíl. Þarna biðu nokkrir útlendingar sem voru strandaglópar í flugstöðinni. Ég komst heim með kunningjum sem höfðu lent í sömu vandræðum.

Það er athyglisvert að rúturnar eru jú einnig reknar af Icelandair (Flugleiðum).

Töskuna mína fékk ég ekki fyrr en eftir sólarhring og ég hef fregnað að sumir höfðu ekki fengið farangur sinn tveim dögum seinna.

Það er greinilegt að flugfélagið verður að hysja rækilega upp um sig buxurnar í þessum þjónustumálum. Það að farangur fylgi ekki með úr tengiflugi skuli vera regla frekar en undantekning er hið versta mál. Það er líka afar vont mál að ekki skuli vera nægt starfsfólk til að sinna þessum málum í flugstöðinni. Ekk slær það á reiðina að standa uppi farlaus eftir svona þjónustu. Ég sárvorkenndi útlendingunum sem sumir voru komnir úr löngu flugi til landsins og stóðu farlausir á vellinum. Hvað skyldu þeir hugsa?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband