20.9.2007 | 23:01
Stöðvum virkjanaæðið
Ekkert lát virðist vera á virkjanaæðinu. Orkufyrirtækin eru í óða önn að gera samninga við álfyrirtæki og önnur orkukrefjandi fyrirtæki. Hönnun virkjana og undirbúningur framkvæmda er á fullu skriði. Fjöldi náttúruperla virðast dauðadæmdar. Og nú á að ráðast á búsetu fólks.
Ég hef á líðandi sumri kynnst baráttu fólks á Suðurlandi gegn frekari virkjunum í Þjórsá. Nú eru í undirbúningi 3 virkjanir í byggð. Þessi áform eru í algerri óþökk íbúanna. Í samtökunum Sól á Suðurlandi er öflugt fólk sem ætlar ekki að láta valta yfir sig. Bændur og aðrir landeigendur eru mjög andsnúnir þessum virkjunum, enda sjá þeir veruleg vandamál í tengslum við þær. Þeir benda m.a. á að lónin muni hækka grunnvatnsstöðuna, tún muni blotna og verða ónýt. Þeir hafa góða þekkingu á svæðinu og vita hvernig áin hagar sér og trúa því fáu sem "sérfræðingar" Landsvirkjunar halda fram.
Virkjanir í neðri hluta Þjórsá snertir fólk og samfélag. Því hefur verið hótað af Landsvirkjun, að verði samningum hafnað verður land þeirra tekið eignarnámi og sett undir lón. Ekki er rætt við aðra sem hugsanlega verða fyrir tjóni t.d. vegna hækkaðrar grunnvatnsstöðu.
Á næstu dögum á að taka úrslitaákvarðanir um þessar Þjórsárvirkjanir. Hér duga ekki þau rök að það eigi að taka fólk fram yfir gæsir og hreindýr. Hér er það fólk sem á að víkja. Er það ekki Kínverska aðferðin?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.