29.9.2007 | 22:39
Eru virkjanastíflur ógn við lífríki hafsins?
Þátturinn Krossgötur, sem Hjálmar Sveinsson er með á Rás 1 er með athyglisverðara útvarpsefni, sem er á boðstólnum. Í dag var umræðuefnið áhrif loflagshlýnunar á hafið umhverfis Ísland. Hann ræddi við Pál Bergþórsson, veðurfræðing; Ástþór Gíslason og Héðinn Valdimarsson sérfræðinga á HAFRÓ og Ingibjörgu Jónsdóttur náttúrulandfræðing.
Sérstaka athygli mína vakti viðtalið við Ástþór. Hann útskýrði mjög vel þau áhrif sem bráðnandi hafís hefur á sjóinn og svifið í honum. Þegar ísinn bráðnar verður eftir seltuminni sjór en sá sem fyrir neðan er. Þessi seltuminni sjór flýtur ofan á saltari sjónum og þannig myndast yfirborðslag. Við blöndun koma nauðsynleg plöntunæringarefni upp í yfirborðið. Þar verða því góð skilyrði fyrir plöntusvifið, undirstöðu lífsins í sjónum, til að þrífast. Það helst í þessum yfirborðslögum vegna þess að lóðrétt blöndun sjávarins er lítil. Væri sjórinn hins vegar allur jafnsaltur mundi plöntusvifið sökkva hratt og ekki nást upp sú mikla framleiðni sem er við þessar norðlægu aðstæður. Hafísinn bráðnar á vorin þegar sólin er að hækka á lofti. Þannig að kjöraðstæður myndast þegar næringarefnin eru einnig í hámarki. Á þessum tíma verður sprenging í lífríki sjávarins.
Hvað með aðra þætti. Á vorin verða náttúruleg flóð í ám landsins. Þær bera með sér aur, sem inniber ýmis plöntunærandi efni til sjávar. Næringarefnin bárust einnig á flæðiengjar og áreyrar, sem gerðu þær mjög frjósamar. Þær skiluðu gjarnan mikilli uppskeru sem var nýtt til beitar eða sem vetrarforði búfjár á árum áður.
Viðtalið við Ástþór má heimfæra á þýðingu vorflóðanna á lífríki hafsins umhverfis landið. Þar kemur mikið ferskvatn til sjávar og veldur nauðsynlegri lagskiptingu sjávarins. Þetta ferskvatn ber með sér mikið af næringarefnum sem plöntusvifið nýtir sér og eykur þannig framleiðni hafsins umhverfis Ísland.
Virkjanastíflur hafa minnkað þessi náttúrulegu flóð og framburð. Þannig hefur verið skorið á mikilvægt næringarflæði til sjávar, sem lífríkið hefur þróast með undanfarin árþúsund. Þetta kann að vera meginskýring þess að sumir fiskistofnar við landið hafa minnkað og eiga e.t.v. eftir að minnka enn frekar. Í því sambandi er vert að benda á að fiskistofnar í Gula hafinu við Kína, hrundu við tilkomu Þriggja Gljúfra Stífluna og Sardínuveiðar í Miðjarðarhafi hrundu við tilkomu Ashwan stífluna, auk þess sem landbúnaðarframleiðsla dróst verulega saman í óshólmum Nílar. Allt vegna þess að skorið var á náttúrleg flóð ánna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.