4.12.2007 | 22:04
Niðurstaða PISA vonbrigði
Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar eru vonbrigði fyrir íslenskt skólakerfi. Það er mikilvægt að finna út hvað veldur. Orsakana er sjálfsagt víða að leita. Þeirra má helst leita í þróun samfélagsins. Börnin eru örugglega ekkert verri að upplagi. Það er vaxandi samkeppni um athygli barna og unglinga. Hrakandi lesskilning má kenna um minni lestri og áherslu á hann. Líkast til vantar meira af áhugaverðu lesefni fyrir krakka. Þar kemur líka til sögunnar vaxandi samkeppni frá öðrum miðlum.
Það sem vekur athygli er slakur árangur í náttúrufræði. Reyndar var ég hneykslaður á þátttakendum í spuningakeppninni Útsvar um daginn þegar þeir þekktu ekki algengustu andategundir. Það er dæmigert fyrir þekkingu landans á náttúru Íslands. Umræðan hefur því miður verið yfirgnæfandi í þá átt að hún sé lítils virði nema að yfir hana sé vaðið í alls kyns framkvæmdum. Rennandi vatn er einskis virði nema því sé breytt í rafmagn, háhitasvæði sömu leiðis. Það er ekki litið á verðmæti náttúrunnar sem slíkrar og óskertrar. Það er að verða eitt helsta mein okkar þjóðfélags að kunna ekki að þekkja og meta þessi verðmæti.
Athugasemdir
Finnar voru í efsta sæti. Fyrir nokkrum árum (gott ef ekki eftir seinustu PISA könnun) var mér sagt að í finnskum skólum héngju veggspjöld með áletrunin: "allir eru góðir í einhverju". Í dag byggja íslenskir skólar á samkeppni, skipt í bekki eftir einkunnum og mikil áhersla á próf og skilaboðin skýr ef árangur er ekki góður. Vel getur verið að það henti þeim bestu, þeir vega hins vegar lítið í svona könnun.
Einnig hef ég áhyggjur af kennslu í náttúrufræði. Það eru ótrúlegustu vitleysur sem þar er stundum borið á borð. Kennarar því miður oft með litla þekkingu í náttúrufræði og bókin hið mesta torf, byggir mest á orðskýringum, skýringar á orðum sem ég kannast meira að segja ekki við, tel ég mig þó þokkalega heima í þessum fræðum. Dæmið um margfaldar genasamsætur finnst mér best. Fjallaði um það fyrir nokkru.
Börnin læra utanað orðskýringu um hvað sé vistkerfi en ég er ekki viss um að þau skilji það. Það er farið á hundavaði yfir mjög mikið efni en ég er ekki viss um að skilningur sé fyrir hendi í nema undantekningartilvikum. Það vantar hins vegar ekki metnaðinn, það er gríðarmikið sem þau eiga að kunna skil á, það þarf hins vegar kennara með góða þekkingu á efninu til að geta útskýrt þetta svo vel megi vera. Mín börn fá þessa kennslu heima ef þau skilja ekki hvað er í gangi, því miður búa ekki allir svo vel.
Kristjana Bjarnadóttir, 4.12.2007 kl. 22:54
Datt inn á bloggfærslu þar sem skólamaður kemur með skýringu sem mér finnst athyglisverð og ekki langt frá því sem ég hef stundum verið að velta fyrir mér þ.e. magn ekki = gæði.
Kristjana Bjarnadóttir, 4.12.2007 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.