9.12.2007 | 22:01
Góð umræða feminista í Silfrinu í dag
Það var gott og gaman að hlusta á málflutning þeirra Katrínar Önnu, Drífu og Sóleyjar í Silfrinu í dag, enda eru þær öflugar talskonur gegn kynjamisrétti. Egill var líka óvenju kurteis og málefnalegur og leyfði umræðunni að fljóta. Þarna var farið vítt yfir sviðið allt frá launamisrétti til ofbeldis. Það er alveg ljóst af umræðu síðustu vikna að málflutningur feminista hefur komið við kaun einhverra. Það vekur talsverðan óhug þegar hótað er ofbeldi til að reyna að þagga niður í umræðunni. Barátta feminista er fyrir jafnrétti og gegn ofbeldi. Ég held að flestir ættu að geta skrifað undir það.
Umræðan sem varð um lit á klæðnaði nýbura var mjög athyglisverð. Þar kom m.a. fram að þessi siður er tiltölulega nýr af nálinni og ætti því að vera auðvelt að taka upp nýja siði í þessum efnum.
Annars kemur mér í hug saga sem gerðist upp úr 1970. Þá voru rauðsokkur að stíga fram á sjónarsviðið sem hreyfing. Eitt af baráttumálum þeirra þá var að nöfn giftra kvenna yrði sett með heimilisfangi og símanúmeri í símaskrána til jafns við eiginmennina. Þetta þótti á þeim tíma mjög öfgafull og fáránleg krafa. Ég man eftir eldri konu sem hneykslaðist mjög á þessari kröfu. En svo rétt fyrir jól langaði henni til að senda jólakort til vinkonu sinnar, sem hún hafði kynnst á húsmæðraorlofi. Þegar til átti að taka var hún búin að týna heimilisfangi vinkonunnar og var hálf eyðilögð yfir því. Því kom dálítið skrýtinn svipur á hana þegar bóndi hennar spurði, hvort hún vissi hvað eiginmaður hennar héti. Ég held að þessi kona hafi þá farið að hlusta á málflutning rauðsokka af meiri athygli en áður.
Þannig geta þau baráttumál sem reynt er að púa niður í dag verið orðin sjálfsögð og staðreyndir innan fárra ára. En það þarf að berjast fyrir þeim ef sigur á að vinnast. Silfrið í dag var áfangi á þeirri braut.
Athugasemdir
Takk fyrir mjög góðan pistil Valgeir. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 9.12.2007 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.