10.12.2007 | 23:06
Vatnsréttindasamningur við Landsvirkjun í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag
Það var athyglisvert að hlusta á utandagskrárumræður á Alþingi í dag. Álfheiður Ingadóttir spurði fjármálaráðherra Árna Mathiesen um álit Ríkisendurskoðunar á samningi um framsal vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár til Landsvirkjunnar. Í umræðunum tóku þátt tveir fulltrúar frá hverjum flokki. Í umræðunni staðfestist samstaða stjórnarflokkanna í þessu máli. Það var lítill munur á málflutningi Össurar Skarphéðinssonar og Lúðvíks Bergvinssonar annars vegar og Árna og Kjartans Ólafssonar hins vegar. Sama má segja um málflutning Frjálslyndra og Framsóknar. Guðni Ágústsson var náttúrlega að verja sínar gerðir. Öllum þessum var greinilega illa við þessa fyrirspurn, hún kom við einhver kaun, sem núverandi og fyrrverandi ráðherrar vildu helst flýja.
Ég saknaði þess að hvorki Björgvin G Siguðsson eða Þórunn Sveinbjarnardóttir tóku þátt í umræðunni. Þau hafa fundað með sunnlendingum og sagst vera á móti þessum virkjunum. Það kann að vera að þau séu á móti þeim þegar þau eru fyrir sunnan Hellisheiði, en á Alþingi greiða þau atkvæði með.
Kjartan Ólafsson hélt reyndar stíft fram það að það væru bara Vinstri Grænir sem væru á móti umræddum virkjunum og væru að rugla sunnlendinga í ríminu. Örugglega er það rétt hjá honum. Það kom líka mjög skýrt fram í máli þeirra Álfheiðar og Atla Gíslasonar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.