29.1.2008 | 21:41
Hætta á kali í túnum
Við þau veðurskilyrði sem verið hafa í haust og í vetur á sunnanverðu landinu er töluverð hætta á kali í túnum. Veðurfarið hefur verið skólabókardæmi um þessa hættu.
Frá ágúst til jóla voru miklar rigningar, haustið var dimmt og blautt. Við slík skilyrði ná grösin ekki að búa sig nægilega vel undir veturinn (harðna). Grösin þurfa m.a. nokkuð sólskin á haustin til þessa vetrarundirbúnings. Að auki gerði þessi mikla úrkoma það að verkum að jörðin er vatnssósa. Því er ekki mikið loft og þar með súrefni í jarðveginum. Þannig var staðan fram að jólum.
Á jóladag snjóaði, en sá snjór bráðnaði milli fyrir nýjár, sem gaf enn meira vatn í jörðina. Síðan upp úr áramótum byrjaði að snjóa og það snjóaði mikið í nokkra sólarhringa. Þriðjudaginn 22. janúar gerði blota í nokkra klukkutíma. Snjórinn krapaði og fraus síðan, líklega mynduðust svell niður við jörð. Næstu daga snjóaði meira, en síðast liðinn sunnudag gerði aftur þíðu í einn dag. Aðeins hluti snjósins bráðnaði og er nú að frjósa aftur.
Næstu daga er útlit fyrir frost og þá er hætt við að enn meiri svell myndist undir snjónum.
Nú eru því komnar aðstæður þar sem veruleg hætta er á kali. Mikið vatn í jörðu og lítið loft, mikill snjór og endurteknir blotar og frost þess á milli gera lífið erfitt fyrir grösin sem híma í súrefnisleysi undir svellunum.
En það er ekki bara súrefnisleysið sem drepur, við þessar aðstæður fara ýmsar kuldakærar gerjunarlífverur af stað. Þær skila ýmis eiturefni út í umhverfi sitt t.d. alkóhól og sýrur eins og smjörsýrur, sem geta drepið grös og aðrar lífverur undir svellunum.
Þessi skaðlegu áhrif eru lítil vari þetta ástand í minna en tvær vikur, en eftir það fara grösin að deyja og kalskellur að myndast í túnum. Vari þetta ástand í mánuð eða meira leitar smjörsýra og önnur óæskileg efni út í gegn um svellin og geta valdið óþef, sem hefur verið nefndur kallykt.
Vonandi kemur þíða áður en ástandið verður svo alvarlegt.
Athugasemdir
Það fer hrollur um mann að lesa þetta, er ekki nóg að áburðurinn hækki úr öllu valdi??
Erna Bjarnadóttir, 6.2.2008 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.