15.2.2008 | 23:15
Hvern var Sveinn Andri að verja?
Það var kostulegt að hlusta á málflutning Sveins Andra í Kastjósinu í kvöld. Sveinn Andri er reyndar þekktastur í mínum huga fyrir að verja ýmsa misyndismenn og reyna að fá dóma yfir þeim mildaða. Einhvern veginn fannst mér hann vera á þeim buxunum í kvöld, þegar hann var að reyna að verja gerðir Sjálfstæðismanna í Borgarstjórn. Í gegn skein sú vissa að öll flokkssystkyn hans væru sek í þessu fræga REI - máli, en hans hlutverk var að fá fram vægan dóm. Þar tókst honum óhönduglega upp í kvöld.
Það er léleg vörn hjá Sveini að fara ekki rétt með staðreyndir málsins. Hann ætti að vita betur um orsakir þess að Svandís sat hjá við atkvæðagreiðslu um samruna REI og GGE. Einnig ætti hann að vita hverjir krukkuðu í listanum yfir það fólk sem átti að fá kaupréttarsamninga.
Það er kominn tími til að Sjálfstæðismenn svari því, hvers vegna var allur þessi hraði á framgangi sameiningarmálsins í haust? Hverjir bjuggu til kaupréttarlistann? Af hverju þoldi hann ekki dagsljós? Hverjir áttu að græða og hve mikið? Hvers vegna er Sjálfstæðismönnum illa við orðið "græðgisvæðing"? Hvers vegna var hluti Ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja látinn til GGE sem nokkurs konar tannfé? Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í eignarhaldsmálum orkufyrirtækja og orkuauðlinda?
Vandamál Sjálfstæðisflokksins er stefna hans sjálfs, sem fólk er farið að sjá í gegn um. Vilhjálmur Þ var aðeins að framfylgja henni með framgöngu sinni í þessu REI - GGE máli. Hinir svokölluðu sexmenningar voru reiðubúnir að samþykkja allan gerninginn, þegar málið tók aðra stefnu.
Athugasemdir
Þarna hittir þú naglann á höfuðið. Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins til eignarhalds á orkuauðlindum? Hvernig væri að kastljósinu væri aðeins beint að því.
Getur verið að sú raunverulega stefna þoli ekki dagsljósið og flokkurinn sé hræddur við að það samrýmist ekki vilja kjósenda hans?
Kristjana Bjarnadóttir, 16.2.2008 kl. 17:49
Einhvern tíma meðan Davíð var borgarstjóri í Reykjavík var mjög fjölmennur haldinn í Mosfellssveitinni eins og sveitarfélagið hét þá. Fundarefnið var hvort sameina ætti Mosfellshrepp við Reykjavíkurborg og voru færð góð og gild rök fyrir því. Fundurinn var haldinn í Hlégarði að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Flestum viðstöddum stóð stuggur af þessari sameiningu þar sem borgarstjórinn þótti nokkuð harður í horn að taka en Mosfellingar voru vanir að hafa stjórn sinna mála á notalegum nótum. Sendiboði Davíðs á fundinum, Sveinn Andri, nýútskrifaður júristi, varð óþolinmóður þegar hann heyrði Mosfellinga andæfa þessari hugmynd, kom í pontu og steytti hnefann framan í Mosfellinga og kvað létt mál fyrir Davíð að skrúfa fyrir rafmagnið í Mosfellssveitina. Þá kvað við út úr sal: „Þá skrúfum við fyrir heita vatnið“ en þá var heitt vatn frá Nesjavallavirkjun ekki farið að streyma til borgarinnar. Varð lítið úr sameiningarmálum úr þessu að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins enda eru langsamlega flestir Mosfellingar og reyndar Íslendingar lítt fyrir að láta segja sér fyrir verkum þegar á reynir.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2008 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.