Allt fyrir Flokkinn!

Það vakti athygli mína í Silfri Egils í dag sá málflutningur sjálfstæðismannanna Illuga Gunnarssonar og Geirs H Haarde að þeir töluðu um hagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar hagsmunum almennings. Til dæmis sögðu þeir báðir að margumtalaður Vilhjálmur væri að gaumgæfa sín mál með hagsmuni Flokksins og svo eins og innan sviga (og borgarbúa).

Mér er spurn, fyrir hverja eru stjórnmálamenn að vinna? Séu þeir að vinna fyrst og fremst að hagsmunum eigin flokks, þá eru þeir jafnframt að vinnað að hagsmunum eigin flokksfélaga. Þá hljóta þeir sem eru ekki flokksbundnir þeim flokki og eru jafnvel í andstæðum flokkum að vera settir til hliðar. Það væri snjallt ef einhver tæki upp á því að kanna hvernig stöðuveitingum hefur verið varið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Hefur ekki flokkurinn (eða flokkskírteinið) æði oft verið tekið fram fyrir hæfni manna og þá um leið hagsmuni almennings?

Samfylkingarkonan Katrín Júlíusdóttir fór heldur flatt þegar hún ætlaði að færa rök fyrir að álver á Bakka við Húsavík samrýmdist Fagra Íslandi. Nú er bygging álvers í Helguvík komið á skrið. Stutt í fyrstu skóflustungu og opnun útboða á byggingunni. Allir vita að Sjálfstæðisflokkurinn rær þarna öllum árum. En stóra spurningin er, hvað ætlar Samfylkingin með Fagra Ísland og Græna netið að gera??? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Mér skilst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á dögunum auglýst stjórnmálaskóla. Hvað ætli eigi að kenna þar??. Annars vona ég að hagfræði þekking almennings aukist kannske verða þá gerðar meiri kröfur til stjórnmálamanna.

Erna Bjarnadóttir, 18.2.2008 kl. 12:28

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Togstreitan milli þeirra Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars er af þessari sömu rót runninn:

Meðan Ólafur Ragnar lagði öll gömul deilumál til hliðar og gróf stríðsöxina, hélt Davíð áfram sinni einstrengislegu hagsmunagæslu og yfirfærði hana yfir á stjórn Sjálfstæðisflokksins. Davíð er að þessu leytinu gamladags stjórnmálamaður sem er fyrst og fremst fulltrúi þeirra afla sem hann var upphaflega valinn af: atvinnurekendanna, peningamannanna og flokkseigendanna. En því miður er Davíð mjög vitur stjórnmálamaður og veit nákvæmlega hvernig sterkur stjórnandi er. Flest bendir til að hann sé afarvel lesinn í fræðum Macchiavellis en í bók hans Il principo, Furstanum, eru nákvæmlegar leiðbeiningar hvernig sterkur stjórnandi á að ná völdum og halda þeim. Það var fyrst og fremst þjóðin og Ólafur Ragnar sem sameiginlega gripu fram fyrir hendurnar á Davíð með því að stoppa fjölmiðlalögin af. Þar sýndi Ólafur forseti gríðarlegt hugrekki gagnvart sterkum stjórnmálamanni sem taldi sig vera allir vegir færir. Ólafur hefur verið metinn mikils af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins vegna þessarar ákvörðunar en aðra sögu segir af þeim „sjálfstæðu“.

Ætli þetta verði ekki sú söguskoðun sem verður uppi þegar þetta sígilda klassíska ryk hafi ekki fallið hæfilega mikið á þessa tíma?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins þá er um það mál að segja að Gunnar Thoroddsen átti veg og vanda af honum. Þar var megináhersla lögð á góða ræðumennsku og vönduð fundarsköp. Gunnar var afburða ræðumaður og naut mikillar hylli langt út fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hvaða áherslu nú eru lagðar í skóla þessum er Mosa ókunnugt. En óskandi er að Il principo sé ekki á námskránni!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2008 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband