13.8.2008 | 13:33
Tími til kominn
Myndin er frá aðalfundi Sparisjóðs Hólahrepps 2004. Kristján Hjelm, sparisjóðsstjóri er í ræðustól að greina frá reikningum sjóðsins, honum á vinstri hönd er Magnús Brandsson, sparisjóðsstóri í Ólafsfirði og stjórnarformaður Sparisjóðs Hólahrepps og til vinstri er Jón Sólnes formaður Sambands Sparisjóða og fundarstjóri.
Á myndinni er Kristján að greina frá ágætri útkomu sjóðsins fyrir árið 2003. Það var síðasta árið sem sjóðurinn skilaði hagnaði. Hálfum mánuði síðar var Kristján rekinn frá sjóðnum að kröfu stjórnenda Kaupfélags Skagfirðinga og samþykkti stjórnarformaður þann gjörning, en tveir stjórnarmenn í sjóðnum mótmæltu kröftuglega en án árangurs.
Á árunum 2000 til 2003 komst Kaupfélag Skagfirðinga og nokkrir stjórnendur þess yfir stóran hlut í Sparisjóð Hólahrepps. Þeir kröfðust atkvæðisréttar í samræmi við það, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki máttu þeir ekki fara með meira en 5% hlut. Í raun var talið að Kaupfélagið hefði fjármagnað öll þessi kaup án þess að það kæmi fram og væri því hinn rétti eigandi þeirra.
Um haustið ákváðu Kaupfélagsmenn í samvinnu við Sparisjóð Mýrasýslu og fleiri að valta endanlega yfir eldri eigendur sparisjóðsins með þeim hætti að Kaupfélagið seldi hluti sína í 5% hlutum til Sparisjóðs Mýrasýslu og stjórnenda Kaupfélagsins og eiginkvenna þeirra. Sett var lögbann á gerninginn, sem þó var ekki samþykkt fyrr en með dómi Héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti á þeim forsendum að um tengda aðila væri að ræða sem ekki máttu fara með með meiri atkvæðisrétt en 5% sameiginlega. Þótti mörgum Skagfirðingum stjórnendur Kaupfélagsins ganga frekt til verks með sameiginlegar eignir sínar.
Saminn var að lokum friður í júní 2005. Sá friður var undireins rofinn þegar Kaupfélagið og stjórnendur þess ákváðu að selja flesta hluti sína út úr héraði og aðallega til fólks sem tengdist hinum þekkta S-hóp. Þannig var meirihluti stofnbréfa sjóðsins seld út úr héraði til manna sem tengdist stjórnendur Kaupfélagsins í gegn um þennan hóp. Sparisjóður Mýrasýslu tók fullan þátt í þessari aðför að Sparisjóðnum, sem reyndar breytti um nafn og kallaðist eftir það Sparisjóður Skagafjarðar.
Það var í raun ótrúlegt hvernig stjórnarmenn sparisjóðsins 2 frá Kaupfélagi Skagafjarðar og einn frá Sparisjóðunum spiluðu með stofnbréfin eins og í Mattador. Við vorum 2 stjórnarmenn, almennir Skagfirðingar í algerum minnihluta og máttum horfa upp á þessa spilamennsku. Við spurðum ítrekað stjórnarmenn frá Kaupfélaginnu hvers vegna það seldi ekki bréf sín til Skagfirðinga. Svar þeirra var ævinlega það að Skagfirðingum væri ekki treystandi fyrir þessum eignum.
Með þessum hætti var róið uns kominn var nægur stuðningur við að sölsa sjóðinn undir Sparisjóð Siglufjarðar. Það var síðan gert fyrir réttu ári síðan, á sannkölluðum hitafundi. Var sá fundur kærður til Fjármálaeftirlitsins og voru færð mörg góð rök fyrir ógildingu fundarins. Því miður hefur það ekki séð sér fært að svara kærendum enn með formlegum hætti.
Það er því svo sannarlega tími til kominn að setja annað stjórnvald í málið.
Vilja rannsókn á yfirtöku á sparisjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er að verða spennt yfir að verða gamalmenni. Þá munu verða skrifaðar bækur af sagnfræðinugm um einkavinavæðingu fjármálakerfisins á Íslandi. Við sitjum með þær á elliheimilinum og lesum um hvernig skólbræður, vinir og Bestu vinir aðal, klóruðu hverjir öðrum á bakinu. Vonandi hafa Bjarni og Gísli erindi sem erfiði en það breytir litlu um orðinn hlut.
Erna Bjarnadóttir, 14.8.2008 kl. 08:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.