Þetta er ekki ný frétt

Því Steingrímur er löngu búinn að segja frá þessu í fjölmiðlum, á fundum og sjálfsagt víðar. Hann taldi sig geta komið til aðstoðar með þessum hætti, í stað þess að þurfa að leita til IMF. Auðvitað varð ferðin að fara hljóðlega m.a. til að Bretar og Hollendingar fengju ekki veður af þessu of snemma. Þeir eru jú með hreðjatak á okkur.

En þessari leið var hafnað vegna pólitískrar viðkvæmni stjórnarflokkanna, svo það reyndi aldrei á hvort hún var fær.

Kjaftaði Davíð ekki of snemma frá Rússaláninu?


mbl.is Vildi leynilega sendinefnd til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni Ragnars Hall

Í kvöld var Ragnar H Hall hæstaréttarlögmaður í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2. Hann var fenginn til að gagnrýna ný lög frá Alþingi um fjármálafyrirtæki. Lögin fela m.a. í sér að ekki er unnt að höfða mál gegn þeim meðan á greiðslustöðvun stendur. Ragnar átaldi þingmenn í heild sinni að hafa samþykkt þessi lög og taldi þá hafa brotið stjórnarskrá. Þarna fór Ragnar ekki rétt með og fréttamaðurinn hefði einnig mátt kynna sér málið betur. Þá hefði hann getað leiðrétt rangfærslu Ragnars. (Voru ekki fréttamiðlar skammaðir hressilega á NASA í gærkvöld fyrir að fara ekki rétt með mál).

En þingflokkur Vinstri Grænna greiddi atkvæði gegn þessu frumvarpi, með hliðstæðum rökum og Ragnar hélt fram í kvöld. Hann hafði greinilega lesið nefndarálit Atla Gíslasonar þingmanns VG, en ekki viljað láta hann njóta þess.

 Nefndarálitið er hér: 

http://www.althingi.is/altext/136/s/0177.html

og atkvæðagreiðslan er hér:

http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=39699

Þar geta menn séð hvaða þingmenn voru reiðubúnir að brjóta stjórnarskrá að mati Ragnars.

 


Skýr skilaboð.

Útrásin svokallaða hefur gefið þjóðinni þau skilaboð að hinir svokölluðu útrásarvíkingar voru að leika sér að fjármunum landsmanna.

Víkingar fóru í herferðir og skildu eftir sig sviðna jörð. Sjaldan var það ættjörðin sem varð fyrir barðinu á þeim heldur fjarlægari lönd og þjóðir. Útrásarvíkingarinir eru þjóð sinni verstir. Þeir fengu þjóðbankana og annan auð þjóðarinnar upp í hendur. Sumir auðguðust af kvótabraski, aðrir með braski með tryggingar og þannig mætti lengi telja. Allt án eftirlits, því það var ekki í þágu frjálshyggjunnar, takturinn var sleginn af ríkisstjórn og fjármálaeftirliti.

Víkingarnir voru duglegir við að safna skuldum, þjóðarbúið varð hrikalega skuldsett. Forsætisráðherra og aðrir ráðmenn höfðu af þessu litlar áhyggjur, því ríkissjóður stæði svo vel. Þannig var landsmönnum haldið í fölsku öryggi um að allt væri í lagi.

Nú þegar allt er hrunið vaknar þjóðin við vondan draum. Þetta var allt á OKKAR ÁBYRGÐ. Allar skuldirnar sem þessir víkingar höfðu sakað að sér um allan heim gjaldfallast á OKKUR, líka þá sem höfðu lifað eðlilegu lífi og ekki tekið þátt í fjárhættuspilinu. Við sitjum hér og horfum á ráðherra greina okkur glaðhlakkalega með bros á vör að nú eigum við að greiða hrikalegar upphæðir vegna alls þess sukks sem þeir hafa látið viðgangast á síðustu árum.

Mér gremst að það er ekki byrjað að krefja víkingana um að skila til þjóðarinnar þeim ránsfeng sem þeir hafa af okkur tekið. Ríkisstjórn, seðlabanki og fjármálaeftirlit virðast hafa slegið skjaldborg um þessa sukkara, enda allir meira og minna samsekir. Eða hvernig haldið þið að Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins taki á Sigurjóni Árnasyni, fv. bankastjóra, en þeir voru eitt sinn saman í stjórn Vöku? Hvers vegna er ekki gengið hart að eignum þessara manna? Jónas Fr. er kyrfilega flæktur í sukkið og á að yfirgefa Fjármálaeftirlitið strax á morgun!

Það hefur illilega komið í ljós að útrásin var í höndum ábyrgðarlausra spilafíkla. Það gat svo sem verið í lagi hefðu þeir spilað með eigin peninga. En þetta voru peningar þjóðarinnar, og við öll eigum heimtingu á að fá þá til baka með góðu eða illu. Reikningurinn er sendur á alla Íslendinga, sem skrifuðu ekki upp á víxilinn, líka þá ófæddu. Auðvitað á að ganga að eigum þessara víkinga fyrst áður en reikningurinn er sendur þjóðinni. Björgólfur Thor á t.d. talsverðar eigur enn sem gætu gengið upp í Icesave-ruglið. Jón Ásgeir var að kaupa fjölmiðla og Sigurður Einarsson á glæsihús í miðborg London og hálfbyggt sumarhús í Borgarfirði. Þetta eru eigur okkar allra, alveg jafnt og skuldirnar sem  er verið að klína á okkur.


mbl.is Skilaboðin voru skýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilmæli til blaðamanna

Hvernig væri að einhverjir góðir blaðamenn tækju sig til og kynntu sér hvaða skilyrði Ungverjar þurfa að uppfylla gagnvart IMF láni. Þessi skilyrði munu liggja fyrir og ætti að vera hægt að gera um það grein í næstu helgarblöðum.
mbl.is Utanaðkomandi mál tefja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stigmagna hvaða deilur?

Með ákvörðun um að fá hingað breskar herþotur til loftrýmiseftirlits er verið að stigmagna reiði þjóðarinnar gagnvart stjórnvöldum. Kostnaður í þessu sambandi skiptir ekki höfuð máli, en líklega verður hann öllu hærri en 25 milljónir króna, því hann verður reiknaður í pundum. Bretar verða áreiðanlega ekkert brjálaðari út í okkur þó við segjum nei takk við þá.
mbl.is Kostnaðurinn 25 milljónir - ekki 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hnjánum

Hross á krafsiTitill leiðara Morgunblaðsins í dag "Traustvekjandi aðgerð" er óneitanlega dálítið skondinn. Þar er fjallað um lán Aðþjóða gjaldeyrissjóðsins til okkar.

Það kemur hinsvegar fram í leiðaranum að ekki var unnt að sækja lán annars staðar frá því traust viðskiptaheimsins á Íslenskum ráðamönnum er ekkert. Þetta er kjarni málsins. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum leitt þjóðina í þær þrengingar að nú þurfa þau trausti rúin að knékrjúpa fyrir þessum sjóð til að ávinna einhvert traust í alþjóðasamfélaginu aftur. Traustvekjandi aðgerð er því í full sterkt orðalag í núverandi ástandi. Já það er eins og einhver hafi verið lífgaður úr dauðadái og liggur nú milli heims og helju í öndunarvél. Það er ekki traustvekjandi ástand. Hér á að byrja að tala upp ástand og fegra það í stað þess að tala um þetta sem kalda staðreynd. Við eigum kröfu á að fá að vita hvert er hið rétta ástand.

Það er einnig undarlegt orðalag í leiðaranum að tala um að þjóðin hafi lent í fjármálahremmingum. Réttara væri að  nota orðalagið að hafa "komið sér í" fjármálaþrengingar, með óhófi, ónógu aðhaldi og lélegu eftirliti. Einhvern veginn finnst mér myndin sem er á síðunni við hlið leiðarans segja meira um ástandið, en þar eru þau Geir og Ingibjörg úr fókus en fyrir aftan þau er málverk af Drekkinarhyl á Þingvöllum í fókus.

Nú byrja þau á að taka 240 milljarða króna lán hjá Gjaldeyrissjóðnum, til samanburðar má nefna að gjaldeyristekjur vegna útfluttra sjávarafurða á síðasta ári nam um 126 milljörðum króna. Og þetta er aðeins byrjunin. Talað er um allt að 1200 milljarða króna lán sem þarf að taka á næstunni eða um tífalt verðmæti útfluttra sjávarafurða.

Nú stendur ríkið að einhverjum mestu fjöldauppsögnum í sögu þjóðarinnar, með uppsögnum bankamanna í hundraðavís. Þannig leiðir ríkið ört vaxandi atvinnuleysi í landinu. Hefði ekki verið nær að bjóða sumu af þessu starfsfólki áframhaldandi starf en á lægri launum? Er ekki slæmt að missa svo margt fólk út úr bönkunum einmitt þegar þarf að byggja upp?


Athyglisverð fyrirsögn

"Við munum ekki láta kúga okkur" er fyrirsögn mbl.is á meðfylgjandi frétt. Geir er greinilega kominn í nauðvörn og kallar til flokksmanna sinna að hann muni ekki láta kúga þá í kosningar.
Sigmar stóð sig vel og spurði áleitinna spurninga sem brenna á þjóðinni, en fékk á móti lítil og léleg svör. Hann fékk þó forsætisráðherra til að gefa út að meiningin væri að endurfjármagna bankana og selja þá síðan. Væntanlega verða þar einhverjir flokksgæðingar handvaldir eins og fyrir 5-6 árum og bönkunum skipt bróðurlega milli ríkisstjórnarflokkana.
Það er því þjóðþrifamál að koma Geir og flokki hans frá völdum. Ekki bara í ríkisstjórn, heldur einnig í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Efna þarf til kosninga sem fyrst og koma á trúverðugri landstjórn.

mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir þetta lán fyrir þjóðarbúið?

Það er mikilvægt að upplýst verði um kjör á svona láni. Nú þegar hafa verið teknar 500 milljarðar og svo bætast 700 milljarðar króna við. Gera má ráð fyrir um 5% vöxtum þannig af þessum tveim lánum þarf að greiða um 60 milljarða í vexti á ári. Reiknist mér rétt til eru þessi vaxtagjöld um helmingur af verðmætum alls fiskútflutnings okkar. Þá er ekki allt talið.

Útrásarvíkinarnir hafa skilið eftir sviðna jörð. Næstu áratugir verða þjóðinni þungir við að borga skuldir þeirra. Hugsa sér hvernig örfáir menn hafa leikið þjóð sína á aðeins 5 - 6 árum. Hvers vegna er ekki búið að frysta eigur þeirra hér á landi til að unnt sé að selja þær eða nýta til skuldagreiðslna?


mbl.is Ekkert liggur fyrir um aðstoð IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hvaða kjörum?

Það er sjálfsögð krafa að Landsvirkjun upplýsi um kjör stjórnenda fyrirtækisins. Til að byrja með mætti upplýsa hvað Friðrik fær fyrir að starfa áfram sem forstjóri Landsvirkjunnar. Tími ofurlauna er liðinn og því er eðlileg krafa að opinbera laun og önnur kjör yfirmanna í fyrirtækjum landsmanna.
mbl.is Ekki það sem ég stefndi að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að færa fyrri eigendum bankanna þá fyrir slikk?

Í Fréttablaðinu í dag og á visir.is er frétt um þá málaleitan lífeyrirssjóðanna að kaupa 51% hlut í Kaupþingi. Það fylgdi með í fréttinni að þeir Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson væru orðaðir við hin 49%. Sjá þessa frétt á slóðinni:

http://www.visir.is/article/20081018/VIDSKIPTI06/545547431/-1

Það er ekkert athugavert við að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu bankakerfisins á ný. Þá verða bankarnir í almanna eigu og hagsmunir almennings verða hátt vegnir í starfsemi þeirra. Hitt finnst mér undarlegra að fyrrum eigendur Kaupþings skuli svo fljótt orðaðir við kaup á bankanum. Sigurður var sjórnarformaður og ber því mikla ábyrgð á rekstri hans. Aðkoma hans að starfsemi bankans verður því vera tekin út og rannsökuð áður en hann fær svo mikið sem stigið fæti inn fyrir hans dyr. Siguður hefur notið ofurlauna og kaupréttarsamninga sem hann hefur samið við sjálfan sig um sem stjórnarformaður fyrirtækisins.

Ólafur Ólafsson fékk Búnaðarbankann fyrir smápening fyrir um 5 árum síðan. Hann hefur verið einn aðaleigandi Kaupþings og hlýtur einnig að bera talsverða ábyrgð á rekstri bankans. Hanns aðkoma hlýtur því að þarfnast rannsóknar áður en hann kemur til greina sem eigandi hans á ný.

Óneitanlega virðist samkvæmt þessari frétt verið að leggja grunn að skiptingu bankanna á ný milli stjórnmálaflokka. Framsókn fær Kaupþing, Sjálfstæðisflokkur Landsbankann og Samfylking Glitni. Plottið fullkomnað og allir halda sínu.

Eða hvað??


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband