Virðum leikreglur

KringilsáOrsakir núverandi stöðu í þjóðarbúi okkar eru eflaust margar. Stuttlega má segja að frarið var fram með milku kappi en lítilli forsjá. Aðvaranir voru hundsaðar, en dansinn kring um gullkálfinn varð viltari uns hann var brotinn niður með næsta auðveldum hætti.

Það helsta sem brást var skortur á leikreglum og sterku eftirliti með fjármálamarkaðnum. Það hefur m.a. Helgi Áss Grétarsson rakið í fjölmiðlum. Slíkrar leikreglur hefði átt að setja strax fyrir 6 árum þegar bankarnir voru einkavæddir og útrásin fór af stað fyrir alvöru. Nú er útrás nauðsynleg öllum þjóðum, en því miður með atgangi síðustu ára hefur þetta orð fengið hrollkalda merkingu. Það er alvarleg mistök ríkisstjórna sem setið hafa síðan ævintýrið byrjaði að hafa ekki hugsað fyrir setningu reglna og styrkt eftirlitsstarfsemi með útrásinni. Það mátti öllum vera ljóst að daglegar fréttir af kaupum og sölum íslenskar útrásarfyrirtækja á margs konar erlendum fyrirtækjum væri ekki á eins traustum grunni og margir héldu. Furðulegust voru krosseignatengslin, sem enginn reyndi að koma böndum á.

Það skýtur því skökku við að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fleira málsmetandi fólk í þjóðfélaginu m.a. á Norð-austurlandi, þrýsta nú hart á stjórnvöld að lina kröfur um umhverfismat til að flýta fyrir virkjunum og álversframkvæmdum. Þetta er sérstaklega rangt vegna þess að einmitt nú þarf að skerpa siðferðisþrek þjóðarinnar til að unnt sé að endurbyggja traust og virðingu. Því skal haldið til haga að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrst og fremst svaf á verðinum gagnvart fjármálabröskurum, hvers vegna ætti honum að vera treystandi fyrir auðlindum landsins.

Það að ætla að byggja hér fleiri álver þýðir að Ísland verður með mestu umhverfissóðum í heimi. Líklega erum við nú þegar sú þjóð sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið miðað við fólksfjölda. Reikna má með að ýmsar þjóðir sem nú þegar berjast við afleiðingar loftlagsbreytinganna hugsi frekar kalt til okkar vegna þessarar stefnu. Þeirra vandi er mun geigvænlegri en peningavandræði okkar Íslendinga.

Með hruni peningakerfisins hljótum við að skoða hve tæpt er að treysta á einhverja eina atvinnugrein. Álframleiðslan er nú orðin einn helsti útflutningur frá Íslandi. Álverð hefur lækkað um þriðjung á síðustu mánuðum, svo tekjur af því fara lækkandi. Þau fyrirtæki sem virðast standa sig best nú eru matvælafyrirtækin og tæknifyrirtæki eins og Össur og Marel. Við hljótum í framtíðinni að leita á slík mið við uppbyggingu til framtíðar. 

Og við hljótum að verða bæta ábyrgð okkar með betra regluverki og eftirlitskerfi.


Fé án hirðis eða hirðar án fjár

Það hefur verið framin bylting á Íslandi. Bankarnir hafa verið þjóðnýttir og efnahagskerfið er í rúst. Þetta lítur fyrst út sem að kommar hafa tekið hér völdin. En nei þeir sem stóðu að byltingunni voru ekki skeggjaðir náungar með alpahúfur og rússneska rifla, heldur jakkaklæddir gaurar á einkaþotum.

Atburðarásin síðustu 5 árin hefur verið með ólíkindum. Já það eru bara 5 ár síðan ríkisbankarnir voru seldir fyrir slikk. Þeim var bróðurlega skipt milli ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Strax við söluna var hrundið af stað þeirri atburðarrás sem við súpum illilega seyðið af í dag.

Fljótlega fór fólki að ofbjóða kaupréttarsamningar, ofurlaun og hátt líferni framámanna bankanna. En það var sussað niður með hagstæðum lánum. Já peningar virtust gersamlega flæða út úr þessum nýfrjálsu stofnunum. Nú átti að sýna hvað frelsi fjármagnsins þýddi. Hafin var útrás.

Útrásin þýddi að keypt voru hin og þessi fyrirtæki. Sum arðvænleg, en önnur ekki. Allt fyrir lánsfé. Mikilvægt var að hinir nýríku Íslendingar gætu haldið rúllettunni gangnadi, og þurftu þeir stöðugt að fjármagna sig með nýjum lánum til að greiða þau eldri. Íslenska þjóðarbúið varð mjög skuldsett.

Ekki höfðu landsfeðurnir miklar áhyggjur af skuldsetningunni, ríkissjóður hafði hagnast svo vel af sölu eigna að hann var nær skuldlaus. Þetta voru bara einhver fyrirtæki úti í bæ sem voru að safna skuldum. Aðvaranir erlendis frá voru teknar sem öfund og illgirni í garð hinna dugmiklu útrásarmanna. Fyrir rúmmun mánuði síðan fór eitt af þessum fyrirtækjum á hausinn, og þá hlakkaði í ákveðnum frammámanni þjóðarinnar,  um leið og hann rómaði hve íslensku bankarnir væru sterkir. Hálfum mánuði síðar varð þessi sami framámaður að jarðsyngja þá einn af öðrum.

Alvarlegur þáttur í þessu peningasukki sem átt hefur sér stað síðustu ár, er hve auðveldur aðgangur hefur verið að lánsfé, sérstaklega myntkörfulánum. Það var ótrúlegt hve margir létu blekkjast til að taka slík lán, jafnvel til að kaupa hluti í sömu fjármálastofnun. Allt var þetta gert í von um skjótfenginn gróða. Mér ofbauð ásóknin í stofnbréf sparisjóðanna, sem keypt voru á margföldu verði. Fyrir þau var oft greitt með lánsfé, sem sýnir hve innistæðulaust þetta kaupæði var. Einnig hve auðvelt var að kaupa dýra glæsibíla fyrir slík lán. Þarna kom í ljós hið undarlega hjarðeðli mannskepnunnar, þar sem fólk verður að geta veitt sér það sama og vinurinn eða nágranninn. Fólk fylgir einhverjum forystusauð í blindni.

Það er þó verulegur munur á mannlegum forystusauðum og þeim af sauðakyni. Sauðir eru gjarnan taldir heimskir, en þeir finna ávallt réttu leiðina. Hinir mannlegur forystusauðir sýna oft jafn mikið kapp en minni forsjá og geta því leitt sína hjörð fram af bjargbrúnum.

Forystusauðirnir í bönkunum nýttu sér kaupagleði þeirra sem keyptu hlutafé. Þessir fjármunir virðast nú vera gersamlega horfnir. Já hvað varð um alla þessa milljarða sem fólk lagði inn í bankana? Þessir fjármunir virðast hafa verið vel nýttir til að kosta öll veisluhöldin.

Fyrirhyggju skorti við einkavæðinguna. Engar skotheldar reglur voru settar. Eigendur bankanna gáta hegðað sér að vild með þeim árangri að skilja þjóðina eftir í þroti. Samfélagsleg ábyrgðartilfinning virðist ekki vera til.

Í mínum huga var aðeins einn stjórnmálaflokkur sem reyndi að hamla gegn þessari óráðsíu, en það voru Vinstri grænir. Þeir komu fram með mörg þingmál, og margs konar gagnrýni á framgang mála. En á þá var ekki hlustað fremur en fjölda erlendra álitsgjafa sem vöruðu við þróuninni.

Afleiðingin er sú að betla lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Líklega hefur aldrei áður þjóð sem á svo marga glæsibíla þurft að leita náðar hjá þessum sjóði. 


Lífleg söfnun á Selfossi

Við hjónakornin gengum saman í nokkrar götur hér á Selfossi í dag. Í höfðustöðvum Rauða krossins hér var mikið um að vera í morgun þátttakan mjög góð. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá hve margt ungt fólk lagði málefninu lið með að ganga í hús með baukana.

Söfnunarfólki var afar vel tekið og voru flestir sem voru heima tilbúnir með einhvern pening til að láta í söfnunina. Það gerði fólk með bros á vör og var skipst á gamanyrðum meðan peningum var troðið í baukinn. Það er gaman að taka þátt í svona átaki.

 


mbl.is Dræm þátttaka í Göngum til góðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háspennulínur eiga ekki að þvera blómleg landbúnaðarhéruð

Ég er algerlega sammála þessari ályktun VG og Sjálfstæðismanna í Skagafirði. Það er að auki eðlilegt að Skagfirðingum standi ógn af þessari línulögn sem kennd er við Blöndu og á uppruna sinn í Blönduvirkjun, því hún á að geta borið hátt í tvöfalt meiri orku en virkjunin framleiðir. Er ekki verið að bora bakdyraleið að virkjunum í Jökulsánum, sem mætt hefur verulegri andstöðu?

 


mbl.is Hafna úreltum hugmyndum um orkuflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til kominn

HPIM1080Myndin er frá aðalfundi Sparisjóðs Hólahrepps 2004. Kristján Hjelm, sparisjóðsstjóri er í ræðustól að greina frá reikningum sjóðsins, honum á vinstri hönd er Magnús Brandsson, sparisjóðsstóri í Ólafsfirði og stjórnarformaður Sparisjóðs Hólahrepps og til vinstri er Jón Sólnes formaður Sambands Sparisjóða og fundarstjóri.

Á myndinni er Kristján að greina frá ágætri útkomu sjóðsins fyrir árið 2003. Það var síðasta árið sem sjóðurinn skilaði hagnaði. Hálfum mánuði síðar var Kristján rekinn frá sjóðnum að kröfu stjórnenda Kaupfélags Skagfirðinga og samþykkti stjórnarformaður þann gjörning, en tveir stjórnarmenn í sjóðnum mótmæltu kröftuglega en án árangurs.

Á árunum 2000 til 2003 komst Kaupfélag Skagfirðinga og nokkrir stjórnendur þess yfir stóran hlut í Sparisjóð Hólahrepps. Þeir kröfðust atkvæðisréttar í samræmi við það, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki máttu þeir ekki fara með meira en 5% hlut.  Í raun var talið að Kaupfélagið hefði fjármagnað öll þessi kaup án þess að það kæmi fram og væri því hinn rétti eigandi þeirra.

Um haustið ákváðu Kaupfélagsmenn í samvinnu við Sparisjóð Mýrasýslu og fleiri að valta endanlega yfir eldri eigendur sparisjóðsins með þeim hætti að Kaupfélagið seldi hluti sína í 5% hlutum til Sparisjóðs Mýrasýslu og stjórnenda Kaupfélagsins og eiginkvenna þeirra. Sett var lögbann á gerninginn, sem þó var ekki samþykkt fyrr en með dómi Héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti á þeim forsendum að um tengda aðila væri að ræða sem ekki máttu fara með með meiri atkvæðisrétt en 5% sameiginlega. Þótti mörgum Skagfirðingum stjórnendur Kaupfélagsins ganga frekt til verks með sameiginlegar eignir sínar.

Saminn var að lokum friður í júní 2005. Sá friður var undireins rofinn þegar Kaupfélagið og stjórnendur þess ákváðu að selja flesta hluti sína út úr héraði og aðallega til fólks sem tengdist hinum þekkta S-hóp. Þannig var meirihluti stofnbréfa sjóðsins seld út úr héraði til manna sem tengdist stjórnendur Kaupfélagsins í gegn um þennan hóp. Sparisjóður Mýrasýslu tók fullan þátt í þessari aðför að Sparisjóðnum, sem reyndar breytti um nafn og kallaðist eftir það Sparisjóður Skagafjarðar.

Það var í raun ótrúlegt hvernig stjórnarmenn sparisjóðsins 2 frá Kaupfélagi Skagafjarðar og einn frá Sparisjóðunum spiluðu með stofnbréfin eins og í Mattador. Við vorum 2 stjórnarmenn, almennir Skagfirðingar í algerum minnihluta og máttum horfa upp á þessa spilamennsku. Við spurðum ítrekað stjórnarmenn frá Kaupfélaginnu hvers vegna það seldi ekki bréf sín til Skagfirðinga. Svar þeirra var ævinlega það að Skagfirðingum væri ekki treystandi fyrir þessum eignum.

Með þessum hætti var róið uns kominn var nægur stuðningur við að sölsa sjóðinn undir Sparisjóð Siglufjarðar. Það var síðan gert fyrir réttu ári síðan, á sannkölluðum hitafundi. Var sá fundur kærður til Fjármálaeftirlitsins og voru færð mörg góð rök fyrir ógildingu fundarins. Því miður hefur það ekki séð sér fært að svara kærendum enn með formlegum hætti.

Það er því svo sannarlega tími til kominn að setja annað stjórnvald í málið. 


mbl.is Vilja rannsókn á yfirtöku á sparisjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð og neikvæð áhrif hlýnunar

Það er athyglisvert að aðalatriðin í fréttinni eru höfð síðust. Því þótt án efa hafi hlýnun jákæð áhrif á sumar plöntutegundir eru aðrar sem víkja. En stærstu vandamálin sem við getum horft fram á eru fleiri sjúkdómar og meindýr sem herja á gróður. Einnig er meiri hætta á kali á þeim trjám sem við höfum nú með meiri hlýnun. Hvers vegna? Jú með hlýnninni er meiri hætta á að komi hlýindakaflar um miðjan vetur sem geta vakið upp gróður, sem síðan drepst í vorhretum. T.d. getur frost í 1 til 2 daga í lok apríl hæglega drepið gróður sem vaknað hefur upp af vetrardvala í mars eða fyrri part apríl. Með kaldari veðráttu er minni hætta á slíkum hlýindaköflum og því helst vetrardvali uns vorið er komið fyrir alvöru.

Einnig er meiri hætta á hvers kyns sjúkdómum, sveppum og skordýrum sem lifa á gróðri. Þessum lífverum er haldið í skefjum af vetrarkuldanum. Vetrarfrostin sjá við þeim. Það er áhyggjuefni að fá sumar þessar meinlífverur á viðkvæman íslenskan gróður sem ekki er þolinn gangvart þeim.

 Við megum ekki heldur gleyma að aukin hlýnun veldur líklega meiri úrkomu, dýpri lægðum og meiri vindhraða, jafnframt því sem sjávarborð hækkar. Ég tel því að þessi hlýnun geti orðið skammvinnur fögnuður fyrir okkur, vandamálin sem við gætum þurft að horfast í augu við geta orðið meiri og illviðráðanlegri en hugsanlegur ágóði. Við verðum að sýna ábyrgð og vinna gegn loftlagsbreytingum, með því að draga úr starfsemi sem gefur frá sér koldíoxíð. Þar er stóriðja og samgöngur fremst í flokki.


mbl.is Áhrif hlýnunar jákvæð á gróður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins er viðurkennt að stóriðja og virkjanir eru tengd fyirbæri

Það ber að fagna þessari ákvörðun Þórunnar. Hún sýnir loks í senn hugrekki og sjálfstæði. Að sjálfsögðu á að meta heildaráhrif þessara framkvæmda. Stóriðjuverksmiðjur þurfa orku og orkuverin eru byggð vegna stóriðjunnar og svo þarf línulagnir til að tengja þessi fyrirbæri saman. Þetta eru því augljóslega allt svo samtvinnað að það er fáránlegt að þetta hafi ekki alltaf verið metið heildstætt, sem ein framkvæmd.

Ég vil svo benda þeim á sem eru að bölsótast yfir þessari ákvörðun og telja að allt sé að fara á hausinn, að nokkur fyrirtæki t.d. Arnarfell fóru á hausinn, þrátt fyrir að hafa fengið feitan bita á Kárahnjúkum.  Þau fyrirtæki sem eru að lenda í gjaldþrotum nú eru fyrst og fremst í vanda vegna hávaxtastefnu og vaxandi verðbólgu, þar sem þau skuldsettu sig í hinu svokallaða góðæri. Þeirra vandi skrifast fyrst og fremst á stefnu stjónvalda á síðustu árum.


mbl.is Undirbúningur skemmra kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma mín og afi áttu einnig 18 börn

Livia átti 18 börn á 23 árum. Amma mín átti 18 börn á 21 ári.

Amma mín Sesselja Gísladóttir (f. 1875, d. 1941) og afi, Valgeir Jónsson (f. 1868, d. 1949) eignuðust 18 börn á 21 ári. Af þessum 18 börnum komust 14 til fullorðinsára, en 4 dóu í frumbernsku. Þessi fríði hópur er nú allur genginn á vit feðra sinna, sum í hárri elli, blessuð sé minning þeirra. Þau bjuggu í Norðurfirði á Ströndum og byggðu þau bæ sem nú kallast Valgeirsstaðir. Satt best að segja er ótrúlegt að þessi barnamergð skuli hafa komist fyrir í þessu húsi, en það var stækkað síðar.

Árið 1986 var haldið ættarmót töldust afkomendur þá vera 350, gera má ráð fyrir verulegri fjölgun síðan þá.

Börn þeirra voru:

Jón f. 1896 (d. sama ár)

Jón f. 1897

Gíslína Vilborg f. 1898

Valgerður Guðrún f. 1899

Sigurlína Guðbjörg f. 1900

Ólafur Andrés f. 1901

Albert f. 1902

Guðjón f. 1903

Guðmundur Pétur f. 1905

Sveinbjörn f. 1906

Soffía Jakobína f. 1907

Sveinbarn f. 1908 (dó í fæðingu)

Benedikt f. 1910

Meybarn f. 1911 (andvana)

Meybarn f. 1912 (andvana)

Eyjólfur f. 1914

Valgeir f. 1916

Laufey f. 1917


mbl.is Frjósamasta kona jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fulla ferð áfram með álverin segir Þorgerður Katrín

Það setti óneitanlega hroll að mér við að hlusta á starfandi forsætisráðherra Þorgerði Katrínu í sjónvarpsfréttunum í kvöld. Hún var að svara þar áliti frá endurskoðunarfyrirtækinu Merril Lynch um íslensku bankanna og þau þrot sem að þeir væru að komast í. Samkvæmt Þorgerði verður þetta bara allt í lagi. Hún nefndi ýmis atriði eins og fjárlög sem verið væri að vinna að sem ætti að bjarga hlutunum. En hún klikkti út með að nefna stærstu voninar, sem ættu að bjarga efnahagnum og bönkunum, en það voru álverin í Helguvík og á Bakka.

Hafa stjónvöld ekki lært neitt af fylleríinu á Austfjörðum? Hverju hafa þær framkvæmdir bjargað? Áttu þær ekki að bjarga landinu frá þroti? Hvernig er staðan nú? Eru vextir og verðbólga ekki komin upp fyrir allt velsæmi? Eru náttúruspjöllin á Austurlandi ekki meiri en fólki var talin trú um? Er ekki verulegt fok úr lónstæði Hálslóns? Er ekki verulegt landbrot við ósa ánna í Héraðsflóa? Hafa ekki tún og engi á bökkum Lagarfljóts blotnað upp? Hvar eru öll afleiddu störfin? Eru ekki hundruð íbúða auðar og til sölu á Egilsstöðum og Reyðarfirði?

Með öðrum orðum hafa þessar framkvæmdir engu bjargað. Fólki fækkar á Austfjörðum eftir sem áður. En það sem er alvarlegast í allri uppbyggingu á áliðnaði hér er að við verðum háð aðeins einni tegund iðnaðar, sem rekinn er af örfáum stórfyrirtækjum. Viljum við setja öll okkar egg í álkörfuna og viljum við leggja allar okkar orkuauðlindir, með tilheyrandi spjöllum undir þennan eina iðnað. Viljum við verða háð stórfyrirtækjum á borð við Rio Tinto og Alcoa, sem þekkt eru fyrir hrottaskap víða um heim? Þau eru kannske bljúg nú en hvernig verða þau þegar þau hafa náð öllum tökum á efnahagslífi okkar. Eða eru þau kannske búin að ná þeim tökum og stjórna þeirri kreppu sem hér ríkir. Nú er sagt að álverð sé hátt, við virðumst ekki njóta þess. Eru þessi fyrirtæki nú þegar búin að taka völdin og stjórna öllu okkar efnahagslífi? Er Þorgerður Katrín aðeins strengjabrúða þeirra?

Við getum ekki treyst Þorgerði og hennar líkum fyrir stjórnartaumunum lengur. Við þurfum nýja og ferska stjórn sem getur sagt stopp við álrisana.

Sjá viðtalið við Þorgerði á eftirfarandi slóð.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397998/2


Óbeisluð vatnsföll eru ekki vannýtt auðlind

Með framburði vatnsfallanna, ekki síst jökulánna berst gríðarmikil og margbreytileg efni til sjávar. Allt bendir til þess, að sá framburður hafi mikil áhrif á næringarefnainnihald sjávarins og þar með á allt lífríkið úti fyrir ströndum landsins einkum þó á þeim svæðum sem liggja næst ósum ánna.
Mat á áhrifum vatnsfalla á lífríki sjávarins undan ósum þeirra á að vera mikilvægur þáttur í umhverfismati vegna stíflubygginga og virkjana í ám. Lífríki sjávarins umhverfis Ísland er einmitt ein mikilvægasta lífæð þjóðarinnar. Það er á grunnsævinu sem klak flestra nytjafiska okkar ræðst.
Þess vegna tel ég að ekki eigi að ráðast í frekari vatnsafls virkjanir fyrr en áhrif stíflugerðar og stöðvun framburðar ánna hefur verið rannsökuð til hlítar. Það er auðvelt að meta og hafa skoðanir á sýnilegum áhrifum virkjana á landi. Áhrif þeirra á hafið og lífríki þess eru ekki jafn augljós. Þau verða ekki metin nema með tæknilegum aðferðum. Þessi áhrif geta þó haft mun meiri efnahagslegar afleiðingar en nokkurn órar fyrir.
Þá eiga rannsóknir á áhrifum stíflna og uppistöðulóna á framburð næringarefna og lífríki sjávar að vera sjálfsagður liður í vöktun á því.


Áhrif þriggja gljúfra stíflunnar í Kína
Í mars 2006 skrifaði undirritaður grein í Morgunblaðið þar sem vitnað var í grein í New Scientist eftir Jessicu Marshall um áhrif Þriggja gljúfra stíflunnar í Kína á lífríki og fiskveiðar í Austur Kínahafi. (sjá hér að neðan). Þar hrundu fiskistofnar nánast strax eftir að stíflan var tilbúin og var það m.a. rakið til þess að framleiðni kísilþörunga hrundi vegna þess að tekið var fyrir kísilríkan framburð til sjávar. Einnig var rennsli árinnar jafnað svo árviss flóð komu ekki og því myndaðist ekki næringarríkur strandsjór á vorin með sama hætti og áður. Hafsvæðið var vaktað og umhverfisáhrifin því metin meðan á byggingu stíflunnar stóð.


Aswan stíflan í Níl
Annað þekkt dæmi er áhrif Aswan stíflunnar í Níl, sem er á landamærum Egyptalands og Súdan, á bæði landbúnað á óshólmasvæðum árinnar og á sardínuveiðar Egypta í Miðjarðarhafi, en hvort tveggja á nú undir högg að sækja vegna tilkomu stíflunnar. Næringarefnin falla út í Nasser vatni, sem er uppistöðulón virkjunarinnar og rennsli árinnar er jafnað. Nú verða bændur á óshólmasvæðinu að reiða sig á áveitukerfi, en það hefur aftur á móti valdið vaxandi seltustyrk í jarðvegi og þannig hefur frjósemin minnkað. Einnig hefur eiturefnanotkun aukist. Árleg flóð í ánni skoluðu jarðveginn og báru með sér frjósaman framburð, sem nú kemst ekki lengra en í Nasser vatn. Afleiðingin er sú að bæði landbúnaður og fiskveiðar í og undan ósum Nílar hafa dregist saman. En Egyptar geta hvorki losað sig við stífluna né lifað í sátt við hana. (Heimild: bókin Water e. Marq de Villiers)

Vatnsföll og vistkerfi strandsjávar
Því ber að fagna þeirri ákvörðun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Vatnamælinga Orkustofnunar að hefja rannsóknir á áhrifum vatnsaflsvirkjana á lífríki sjávarins umhverfis landið, en greint var frá því í kvöldfréttum RÚV 29. júní 2008. Rannsóknunum verður stjórnað af Jóni Ólafssyni haffræðingi. Í síðasta hefti Náttúrufræðingsins er góð grein eftir hann, Sólveigu Rósu Ólafsdóttur og Jóhannes Briem sem kallast „ Vatnsföll og vistkerfi strandsjávar“ . Í greininni rekja þau mikilvægi strandsjávarins, sem myndast við blöndun við ferskt árvatn á grunnsævinu við landið. Hvernig uppleyst næringarefni sem nýtast plöntusvifi berast með árvatninu út í strandsjóinn og eflir þannig lífkerfi grunnsævisins. Mikilvægustu tegundirnar í plöntusvifinu eru kísilþörungar, en þeir þurfa mikið af kísil til að dafna og verða að lífmassa sem nærir fæðukeðjuna frá smásæju dýrasvifi upp í nytjastofnana. Í greininni er einmitt rakið hver áhrif Þjórsár eru á þetta næringarefnaflæði til sjávar og á fæðukeðjuna. Rannsóknir á þessu samhengi eru því mjög tímabærar og undarlegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi skuli ekki hafa krafist þeirra fyrir löngu.

 

Birt í Morgunblaðinu 7. júlí 2008 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband