Niðurstaða PISA vonbrigði

Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar eru vonbrigði fyrir íslenskt skólakerfi. Það er mikilvægt að finna út hvað veldur. Orsakana er sjálfsagt víða að leita. Þeirra má helst leita í þróun samfélagsins. Börnin eru örugglega ekkert verri að upplagi. Það er vaxandi samkeppni um athygli barna og unglinga. Hrakandi lesskilning má kenna um minni lestri og áherslu á hann. Líkast til vantar meira af áhugaverðu lesefni fyrir krakka. Þar kemur líka til sögunnar vaxandi samkeppni frá öðrum miðlum.

Það sem vekur athygli er slakur árangur í náttúrufræði. Reyndar var ég hneykslaður á þátttakendum í spuningakeppninni Útsvar um daginn þegar þeir þekktu ekki algengustu andategundir. Það er dæmigert fyrir þekkingu landans á náttúru Íslands. Umræðan hefur því miður verið yfirgnæfandi í þá átt að hún sé lítils virði nema að yfir hana sé vaðið í alls kyns framkvæmdum. Rennandi vatn er einskis virði nema því sé breytt í rafmagn, háhitasvæði sömu leiðis. Það er ekki litið á verðmæti náttúrunnar sem slíkrar og óskertrar. Það er að verða eitt helsta mein okkar þjóðfélags að kunna ekki að þekkja og meta þessi verðmæti. 


Njörður P Njarðvík alltaf góður

Ég vakna yfirleitt um kl. 8 á sunnudagsmorgnum. Mig langar oft til að sofa öng lengur, en nú opna ég útvarpið og hlusta á þáttinn hans Njarðar. Þetta er einstaklega ljúfur og áheyrilegur þáttur þar sem víða er komið við sögu. Þar er blandað saman ýmsum tilvitnunum, kveðskap, ljúfri tónlist og góðar athugsemdir og pælingar frá Nirði sjálfum. Í morgun fjallaði hann um vatn og rigningu. Þar minntist hann m.a. á að hann hefði hitt mann frá Sudan. Þegar sá Súdanski komst að að það ringdi mikið á Íslandi sagði hann "þið hljótið að vera hamingjusöm þjóð". Njörður fór einnig yfir kveðskap nokkurra skálda þar sem þau mærðu regnið. Þar er sannarlega þörf á að minna þjóðina á mikilvægi vatnsins og regnsins og að hún eigi að vera þakklát fyrir það. Það er undirstaða hamingju þjóðarinnar.

Það er því mjög notalegt að kúra áfram í rúmminu, slaka á og hlusta á þennan þátt. Þakka þér fyrir Njörður.


Er ROUNDUP (glyfosfat) skaðlaust efni?

Roundup eða glyfosfat hefur verið eitt algengasta plöntueitrið á markaðnum. Það hefur verið talið skaðlaust mönnum og dýrum og brotnar hratt niður í jarðveginum, svo áhrif þess þynnast út á skömmum tíma. Hér er það selt í apótekum og verslunum sem selja garðyrkjuvörur. Það drepur allan gróður og er því vinsælt við að vinna á gróðri í gangstéttum, á stöðum þar sem ætlunin er að skipta um gróður, eða jafnvel til að drepa einstaka njóla.

Í grein í tímaritinu "Journal of pesticide reform" frá 2004 (vol 24 no 4) er grein um þetta glyfosfat þar sem varað er við þessu efni.

Í greininni kemur fram að úði af roundup getur valdið sviða í augum, sjóntruflunum, óþægindum í húð m.a. útbrotum og kláða, hnerra, eymslum í hálsi, astma og öðrum öndunartruflunum, höfuðverk, blóðnösum og svima.

Komið hefur fram við rannsóknir á rannsóknastofu að glyfosfat skaðaði erfðaefni í mannsfrumum, sama gerðist í rannsóknum á tilraunadýrum. Einnig er það talið auka líkur á krabbameini.

Fleiri heilsuvandamál hafa verið greind í tenglum við glyfosfat.

Hér er krækja á umrædda grein:

http://www.pesticide.org/glyphosate.pdf

 

 


Hvítir Sjálfstæðisenglar

Það hefur verið kostulegt að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna síðustu daga. Ekki voru óskir forsætisráðherra góðar, en hann sagði þetta samstarf "fæli dauðann í sér". Spurning hvort eitt æðsta embætti þjóðarinnar megi láta svona orðbragð frá sér fara.

Hanna Birna sagði á blaðamannafundinum við heimili Vilhjálms "að það væri auðvelt að leysa málið, Björn Ingi þyrfti bara samþykkja það sem þau vildu". Samstarf sem byggist á módelinu 7+1 eins og borgarstjórnarmeirihlutinn var getur ekki verið annað en erfitt. Sérstaklega þegar þessi meirihluti hafði ekki meirihluta atkvæða borgarbúa á bak við sig og þessi eini rétt skreið inn í borgarstjórn.

Sjálfstæðismenn hafa fyllstHPIM2407 gífurlegri reiði og látið ýmislegt flakka um Björn Inga og aðra framsóknarmenn. Sakað þá um spillingu og siðleysi, kastað grjóti úr glerhúsum. Þessi ummæli hafa bæði komið frá borgarfulltrúum, alþingismönnum og ýmsum bloggurum. Hér er rétt að benda þessu ágæta fólki á ýmislegt varðandi spillingu framsóknarmanna. Það  gleymist í umræðunni í hverra skjóli þessi spilling þreifst. Með hverjum starfaði Björn Ingi í borgarstjórn? Í hverra skjóli gat hann unnið að sínum spilltu áhugamálum? Í hverra skjóli gat hann gert feita kaupréttarsamninga við vini sína?

Ekki má gleyma að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur störfuðu saman í ríkisstjórn í 12 ár. Á þessum 12 árum voru margar ábatasamar ríkiseigur seldar til einkavina innan þessara flokka. Þannig fengu framsóknarmenn Búnaðarbankann á silfurfati frá þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde. Þessir sömu framsóknarmenn eru stórleikarar í Orkuveitusápunni. Þannig hafa þessir flokkar vélað með eigur almennings í allt of langan tíma. Atburðarrás síðustu daga í borgarstjórn stöðvar vonandi um sinn hjól einkavæðingar orkuauðlinda landsins.

Tjónið er nóg samt, eða hver á Hitaveitu Suðurnesja?


Helmingaskipti íhalds og framsóknar enn í gangi

Borgarstjórnarsápan heldur áfram. Það er kristaltært að þetta er aðeins byrjunin á helmigaskiptum eignarhluta íhalds og framsóknar í orkugeiranum. Það er ekki gleymt hvernig þessir flokkar skiptu í bróðerni með sér bönkum landsins og fleiri eigum þjóðarinnar. Fyrst voru fyrirtækin hlutafjárvædd og síðan seld. Nú eru það orkufyrirtækin og orkuauðlindir þjóðarinnar sem eru tekin til skipta. Byrjað er á Hitaveitu Suðurnesja, þar sem hið undarlega fyrirtæki "Geysir Green Energy" er komið með puttana. Forkálfar þess fyrirtækis eru úr þessum tveim flokkum. Því skal greidd gatan inn í önnur orkufyrirtæki í landinu og byrjað á Orkuveitu Reykjavíkur.

Það verkur óþægilega athygli hve frammámenn í Sjálfstæðisflokknum neita harðlega öllum áformum um einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Það gerðu flokkssystkin þeirra þegar bankarnir og síminn voru hlutafjárvædd á sínum tíma. Það liðu ekki margir mánuðir uns þessi fyrirtæki voru einkavædd.

Fyrir skeleggan málflutning Svandísar Svavarsdóttur og fleiri úr röðum Vinstri Grænna hefur málið aðeins hrokkið til baka. Samfylkingin er því miður út og suður í málflutningi sínum og situr uppi með að hafa samþykkt sameiningu GGE og REI í stjórn Orkuveitunnar og þar með lagt blessun sína yfir ósómann. Málflutningur foringja meirihlutaflokkana í Reykjavík er með þeim endemum að ekki er unnt trúa þeim. Allra síst eftir upplýsingar frekari forkaupsréttarákvæði sem stjórn REI hafði samþykkt, eins og fram kom í Kastljósinu í kvöld.


Vék sr. Anna Sigríður Pálsdóttir fyrir Bjarna Ármannssyni??

Í kvöld var á dagskrá viðtalsþáttur Evu Maríu í Ríkissjónvarpinu. Á vef RÚV (ruv.is) var kynnt í dagskrá að sr. Anna Sigríður Pálsdóttir yrði viðmælandi Evu. Sr. Anna er nýskipuð í embætti Dómkirkjuprests og því verðugur gestur í þættinum. Það vakti því furðu mína að sjá Bjarna Ármannsson mættan í þáttinn í stað sr. Önnu. Til öryggis athugaði ég dagskrákynninguna á ruv.is áður en ég sló þessa færslu inn og mikið rétt sr. Anna var enn kynnt sem gestur þrátt fyrir að þættinum hafi lokið fyrir tveim tímum síðan.

Hvað veldur því að sjónvarpið breytir um gesti í þáttum sínum á síðustu stundu. Bjarni hefur verið mjög umdeildur síðustu daga vegna hlutafjárkaupa í Reykjavik Energy Invest (REI). Hann hefur kvartað undan umfjölluninni um sig, sem eðlilega hefur verið mjög óvægin bæði í hans garð og annarra ráðamanna REI. Í Silfri Egils í dag hneyksluðust allir viðmælendur (Össur, Valgerður, Þorgerður Katrín og Ögmundur) á þessu ráðslagi og voru sammála um að þarna hefðu menn farið langt fram úr sér.

Því er engin furða að Bjarni hafi viljað hreinsa blettinn af flibbanum, en hann skal ekki halda að huggulegt viðtal við Evu Maríu geri það. Eftir stendur, hvers vegna breytti Eva um viðmælanda á síðustu stundu??

Sjá nánar á http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/live/


Frábær Svandís

Borhola á HellisheiðiMálflutningur Svandísar Svavarsdóttur í fjölmiðlum í dag, vegna sameiningar Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest, er hreint út frábær. Hún hefur flutt mál sitt að skörungsskap og rökfestu. Það er undarlegt skjól sem borgarstjóri hleypur í að vitna í misvitran hæstaréttarlögmann, sem fenginn var utan úr bæ til að stjórna fundinum, um lögmæti fundarins. Ákvæði um boðunartíma funda er það skýrt að það þarf ekki hæstaréttarlögmenn til að túlka það. Alltaf þegar gripið er í slíkar röksemdir, má reikna með að óhreint mjöl sé í pokahorninu. Þarna varð að vinna hratt til að hugsanlegir andstæðingar gerningsins næðu ekki vopnum sínum. Það liggur mikið við í þessari einkavinavæðingu sem þarna á að eiga sér stað. Hér var gefinn skítur í alla eðlilega stjórnsýslu.

Afstaða Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna þarf ekki að koma á óvart, enda eru það þeirra vinir sem eru að græða vel á greiðanum. Framlag Samfylkingar í málinu er hins vegar alger ráðgáta, dæmigerð með og á móti í sömu setningu.

Eftir þennan dag hefur Svandís staðfest enn og aftur hæfni sína sem stjórnmálamaður í fremstu röð. Áfram Svandís!


Eru virkjanastíflur ógn við lífríki hafsins?

Þátturinn Krossgötur, sem Hjálmar Sveinsson er með á Rás 1 er með athyglisverðara útvarpsefni, sem er á boðstólnum. Í dag var umræðuefnið áhrif loflagshlýnunar á hafið umhverfis Ísland. Hann ræddi við Pál Bergþórsson, veðurfræðing; Ástþór Gíslason og  Héðinn Valdimarsson sérfræðinga á HAFRÓ og Ingibjörgu Jónsdóttur náttúrulandfræðing.

Sérstaka athygli mína vakti viðtalið við Ástþór. Hann útskýrði mjög vel þau áhrif sem bráðnandi hafís hefur á sjóinn og svifið í honum. Þegar ísinn bráðnar verður eftir seltuminni sjór en sá sem fyrir neðan er. Þessi seltuminni  sjór flýtur ofan á saltari sjónum og þannig myndast yfirborðslag. Við blöndun koma nauðsynleg plöntunæringarefni upp í yfirborðið. Þar verða því góð skilyrði fyrir plöntusvifið, undirstöðu lífsins í sjónum, til að þrífast. Það helst í þessum yfirborðslögum vegna þess að lóðrétt blöndun sjávarins er lítil. Væri sjórinn hins vegar allur jafnsaltur mundi plöntusvifið sökkva hratt og ekki nást upp sú mikla framleiðni sem er við þessar norðlægu aðstæður. Hafísinn bráðnar á vorin þegar sólin er að hækka á lofti. Þannig að  kjöraðstæður myndast þegar næringarefnin eru einnig í hámarki. Á þessum tíma verður sprenging í lífríki sjávarins.

Hvað með aðra þætti. Á vorin verða náttúruleg flóð í ám landsins. Þær bera með sér aur, sem inniber ýmis plöntunærandi efni til sjávar. Næringarefnin bárust einnig á flæðiengjar og áreyrar, sem gerðu þær mjög frjósamar. Þær skiluðu gjarnan mikilli uppskeru sem var nýtt til beitar eða sem vetrarforði búfjár á árum áður. Framburður Jökulsár á Fjöllum í Axarfjörð

Viðtalið við Ástþór má heimfæra á þýðingu vorflóðanna á lífríki hafsins umhverfis landið. Þar kemur mikið ferskvatn til sjávar og veldur nauðsynlegri lagskiptingu sjávarins. Þetta ferskvatn ber með sér mikið af næringarefnum sem plöntusvifið nýtir sér og eykur þannig framleiðni hafsins umhverfis Ísland.

Virkjanastíflur hafa minnkað þessi náttúrulegu flóð og framburð. Þannig hefur verið skorið á mikilvægt næringarflæði til sjávar, sem lífríkið hefur þróast með undanfarin árþúsund. Þetta kann að vera meginskýring þess að sumir fiskistofnar við landið hafa minnkað og eiga e.t.v. eftir að minnka enn frekar. Í því sambandi er vert að benda á að fiskistofnar í Gula hafinu við Kína, hrundu við tilkomu Þriggja Gljúfra Stífluna og Sardínuveiðar í Miðjarðarhafi hrundu við tilkomu Ashwan stífluna, auk þess sem landbúnaðarframleiðsla dróst verulega saman í óshólmum Nílar. Allt vegna þess að skorið var á náttúrleg flóð ánna.

 

 


Stöðvum virkjanaæðið

Ekkert lát virðist vera á virkjanaæðinu. Orkufyrirtækin eru í óða önn að gera samninga við álfyrirtæki og önnur orkukrefjandi fyrirtæki. Hönnun virkjana og undirbúningur framkvæmda er á fullu skriði. Fjöldi náttúruperla virðast dauðadæmdar. Og nú á að ráðast á búsetu fólks.

Ég hef á líðandi sumri kynnst baráttu fólks á Suðurlandi gegn frekari virkjunum í Þjórsá. Nú eru í undirbúningi 3 virkjanir í byggð. Þessi áform eru í algerri óþökk íbúanna. Í samtökunum Sól á Suðurlandi er öflugt fólk sem ætlar ekki að láta valta yfir sig. Bændur og aðrir landeigendur eru mjög andsnúnir þessum virkjunum, enda sjá þeir veruleg vandamál í tengslum við þær. Þeir benda m.a. á að lónin muni hækka grunnvatnsstöðuna, tún muni blotna og verða ónýt. Þeir hafa góða þekkingu á svæðinu og vita hvernig áin hagar sér og trúa því fáu sem "sérfræðingar" Landsvirkjunar halda fram.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsá snertir fólk og samfélag. Því hefur verið hótað af Landsvirkjun, að verði samningum hafnað verður land þeirra tekið eignarnámi og sett undir lón. Ekki er rætt við aðra sem hugsanlega verða fyrir tjóni t.d. vegna hækkaðrar grunnvatnsstöðu.

Á næstu dögum á að taka úrslitaákvarðanir um þessar Þjórsárvirkjanir. Hér duga ekki þau rök að það eigi að taka fólk fram yfir gæsir og hreindýr. Hér er það fólk sem á að víkja. Er það ekki Kínverska aðferðin? 


Rausnarskapur við HR eða....

Það vakti talsverða athygli þegar Róbert Wessman færði Háskólanum í Reykjavík veglega gjöf, að sögn úr eigin vasa. Án efa munu þessir fjármunir nýtast skólanum vel. En er allt sem sýnist?

Í mínum huga eiga háskólar að vera fjárhagslega sjálfstæðir. Þeir mega ekki vera háðir fyrirtækjum eða öðrum stofnunum. Þeir eiga að geta stundað rannsóknir og gefið frá sér álit óháð hagsmunum annarra. Yfirleitt er borið meira traust til rannsókna sem unnar eru fyrir opinbert fé. Fyrirtæki sem kosta rannsóknir vilja gefa sér niðurstöður fyrirfram og þeir sem slíkar rannsóknir stunda finna fyrir þrýstningnum og hneigjast til að hagræða niðurstöðum viljandi eða óviljandi.

Í þessu sambandi eðlilegt að varpa fram þeirri spurningu hvort Háskólinn í Reykjavík geti gefið óháð álit um eitthvað sem tengist Actavis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband