16.9.2007 | 21:23
Lýðræði og skipulag eða verktakalýðræði.
Framkvæmdum fylgir gjarnan mikið kapp, en stundum minni forsjá. Þeir sem ætla að framkvæma mikið liggur á, þeim finnast skipulag og annað skrifræði hálfgerður óþarfi, sem tefur fyrir framförum.
Skipulagsmál eru á forræði og ábyrgð sveitarfélaga. Stundum virðast þau hafa selt þetta vald sitt til verktaka eða annarra framkvæmdaaðila. Þeir hafa keypt sér framkvæmdarétt á landskika, sem þeir telja sig geta farið með að vild án tillits til gildandi skipulags. Þannig er algengt að framkvæmdaaðilar ýti á verulegar breytingar á gildandi skipulagi í til að geta reist stærri mannvirki en ráð var fyrir gert. Stundum eru skipulögð heil hverfi, en ekki tekið með í reikninginn að hverfi þurfa vegi, hita, rafmagn, síma, vatn og fráveitur, sem allt þarf að fara í gegn um annað land. Í mörgum tilfellum þrengja nýframkvæmdir að þeirri byggð sem fyrir er. Þær skyggja á útsýni, leiða til aukinnar umferðar og umhverfishljóða.
Í framkvæmdagleðinni gleymist oft lýðræðið. Íbúar eiga að geta haft áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir. Þeir eiga að geta gert athugasemdir við fyrirhugað skipulag og stjórn viðkomandi sveitarfélagsins, á að taka þær til athugunar og svara hverri og einni. Þrátt fyrir þetta eru víða deilur um skipulag. Þá virðast sveitarstjórnir oft líkjast Þorra gamla í kvæðinu Þorraþræl, þar sem þær hlusta á athugasemdir íbúanna, gaddfreðnar, líkt og harðir steinar og gefa engu grið.
Þó verður að fagna því að bæjarstjórn Kópavogs hefur gert hið sjálfsagða og látið undan þrýstingi varðandi stórskipahöfnina í Kársnesi. Víða annars staðar valda skipulagstillögur verulegum deilum og nokkur dæmi sem hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu er:
Miðbær Hafnarfjarðar, en þar á að reisa hærri hús en íbúar geta sætt sig við.
Veglagning um Álafosskvos í Mosfellsbæ, en þar á að leggja veg að fyrirhugaðri byggð í svokölluðu Helgafellslandi.
Miðbær Selfoss, þar á að reisa stærri hús, en íbúar geta sætt sig við.
Keilugrandi 1 í Reykjavík, þar var upphaflega ætlað að reisa blokk með 50 íbúðum, en framkvæmdaaðili hyggst reisa 130 íbúðablokk.
Iðnskólareitur á Skólavörðuholti, en þar er verið að skipuleggja verulega stækkun iðnskólans á svæði sem nú þegar er fullsetið.
Þetta eru aðeins nokkur dæmi um mál sem eru í gangi, þar sem sveitarstjórnir virðast hafa misst völd í hendur verktökum og eru eins og milli steins og sleggju, milli verktakana og almennings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 21:26
Lífefnaelsneyti getur skaðað meira en hjálpað
Á vefsíðu Reuters birtist eftirfarandi grein 11. september 2007 eftir Sybille de La Hamaide
http://www.reuters.com/article/environmentNews/idUSL1187947920070911
Greinin heitir "Biofuels may harm more than help" eða "lífefnaeldsneyti getur skaðað meira en hjálpað. Hér birtist lausleg þýðing þessarar greinar.
PARIS (Reuters) - Lífefnaeldsneyti, er ætlað að minnka orkuþörf, auka landbúnaðarframleiðslu og aðstoða í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. En getur í raun verið skaðlegt umhverfinu og hækkað matvælaverð, samkvæmt niðurstöðum athuganar sem birt var sl. þriðjudag
Í skýrslu um áhrif lífefnaeldsneytis hefur OECD gefið út það álit að lífefnaeldsneyti geti "boðið upp á lækningu sem er verri en sjúkdómurinn sem henni er ætlað að lækna".
OECD sagði enn fremur að "Sú áhersla sem lögð er á aukningu í notkun lífefnaeldsneytis er að mynda ósjálfbæra spennu sem getur truflað markaði ánþess að hafa nein jákvæð umhverfisáhrif"
"Þegar tekið er með í reikninginn atriði eins og súrnun jarðvegs, áburðarnotkun, minnkun líffræðilegs fjölbreytileika og eiturverkanna vegna plágueyða, geta umhverfisáhrif etanóls og biodísels hæglega orðið jafn mikil og af bensíni og jarðolíu.
Af þessum sökum eru ríkisstjórnir hvattar til að draga úr stuðningi til þessa málaflokks en í staðinn hvetja til rannsókna á tækni sem keppir síður um landnýtingu til fæðuframleiðslu.
OECD hefur einnig bent ríkisstjórnum á að þær ættu að hvetja til annarra aðferða til að framleiða lífefnaeldsneyti og kanna möguleika á að koma þeim í framkvæmd.
OECD sagði einnig að skattahvetjandi ákvæði, sem sett eru víða m.a. í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum, til að örva framleiðslu lífefnaeldsneytis gætu beint sjónum frá öðrum möguleikum.
Stefnan hvað varðar lífefnaeldsneyti getur verið auðveld leið til að styrkja landbúnað gegn niðurskuðartillögum í alþjóðasamningum, sem m.a. fela í sér aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.
Í stað þess á að hvetja meðlimi Alþóða Viðskiptastofnunarinnar (WTO) til að minnka verslunarhindranir á lífefnaeldsneyti frá þróunarlöndum, sem hafa hagstæðari vaxtarmöguleika og loftslag, til að framleiða lífmassa.
OECD hvetur einnig ríkisstjórnir til orkusparnaðar í flutningum og ferðalögum frekar en að hvetja til framleiðslu á svokallaðri "grænni" orku.
Hver sá líter af bensíni eða hráolíu sem sparast vegna þess að fólk gengur eða hjólar í stað þess að ræsa bílvélar, kostar mun minna fyrir efnahagskerfið en að styrkja óhagstæða nýja orkuöflun, segir OECD.
Lífefnaeldsneyti sem er unnið úr korni, olíufræjum eða sykri, hefur reynst vera ábyrgt fyrir nýlegri ólgu í verðlagningu bújarða auk annarra þátta eins og lakari afrakstri og þrengri fjárhag.
Í júlí sendi OECD frá sér það álit að það teldi að á næsta áratug muni verð á lífenfaeldsneyti haldast hátt og leiða til óumflýjanlegarar umræðu um val milli fæðu- eða eldsneytisframleiðslu.
OECD lýkur skýrslu sinni með því að segja að "sérhver landskiki sem tekinn verði úr fæðu eða fóðurframleiðslu til framleiðslu á lífefnaeldsneyti mun hafa áhrif á veðlag matvæla, þar sem þau keppa um sömu auðlindir.
Sjá einnig aðra grein hér:
http://www.ft.com/cms/s/0/e780d216-5fd5-11dc-b0fe-0000779fd2ac.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 23:42
Feluleikur Sjálfstæðisflokks
Það hefur vakið athygli mína í yfirstandandi kosningabaráttu hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er að fela óþægileg stefnumál sín. Hann afneitar einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hann afneitar stóriðjustefnu sinni. Hann afneitar að stefnt er að virkjunum sem víðast. Hann afneitar biðlistum á sjúkrastofnunum. Allt tal um kaupmáttaraukningu eru orðum aukið, það ættu flestir að finna á eigin pyngju. Þetta er mjög merkilegt í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á stjórnartíma hans. Nei nú á að slá ryki í augu kjósenda og fela þetta allt fram yfir kosningar.
Það hefur einnig vakið sérstaka athygli mína að Sjálfstæðisflokkurinn felur óþægilega frambjóðendur sína. Þannig er það alla vega á Suðurlandi þar sem nafnarnir í fyrsta og öðru sæti listans geta ekki ferðast saman a.m.k. komu þeir sinn í hvoru lagi á minn vinnustað. Sá sem er í fyrsta sæti dreifði pésa sem prýddur var forsíðumynd af honum og kvenkyns frambjóðendum neðarlega á listanum. frambjóðendur í öðru og þriðja sæti eru greinilega settir til hliðar.
Já þetta er merkilegur skollaleikur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2007 | 23:49
Vorið er komið!
Í dag fór ég til Skagafjarðar. Tilefnið var heldur erfitt, sem ég segi frá síðar.
Það er greinilega allt að lifna af vetrardvala. Það sá ég strax á Kjalarnesi, tún farin að grænka og máfar í tilhugalífi flugu yfir. Þarna voru bæði stommáfar og hettumáfar. Í hlíðum Akrafjalls voru svo sílamáfar í varphugleiðingum. Já það getur verið erfitt fyrir fuglaáhugamann að hafa hugann við aksturinn á þessum árstíma. Farfuglarnir boða sumarið með komu sinni.
Í Borgarfirðinum voru álftahópar á túnum einnig töluvert af grágæsum. En mesta athygli vöktu blesgæsirnar. Þær eru fargestir á suðvestanverðu landinu vor og haust. Þær fara svo nánast í hávestur yfir Grænlandsjökul og njóta hins stutta en auðuga sumars á túndrum Vestur Grænlands og Kanada. Þær eiga þar enn öruggan griðarstað. En þessi búsvæði geta verið í hættu vegna hlýnandi lofslags.
Á Holtavörðuheiðinni svamlaði álftapar í krapalæk við veginn, en heiðin var alþakin snjó, þó var vegurinn auður. Fyrir austan Hrútafjarðará var álftahópur á túnum. Þar er alltaf stórir álftahópar á vorin og virkilega forvitnilegt að finna út hvað veldur. Með álftunum voru nokkrar grágæsir og heiðagæsir, en þær eru einkennandi á Norðurlandi á vorin. Heiðagæsirnar fara ýmist til Grænlands eða upp á hálendið til að verpa. Þeirra varpstöðvar eru ekki eins tryggar og blesgæsarinnar því við mennirnir höfum eyðilagt allmarga með gerð uppistöðulóna.
Á Hrútafjarðarhálsi sá ég nokkra rjúpnakarra að helga sér óðul. Þeir eru hálf varnarlausir svona drifhvítir á auðri jörð. Þeir verða jú að sjást af kvenfuglunum, en þeir eru einnig sýnilegir af óvinum sínum, refum og fálkum, enda eru þeir vinsælir á matseðli þeirra á þessum tíma.
Í Línakradalnum sá ég fyrsta helsingjahópinn, en þeir urðu fleiri áður en ferð minni lauk. Helsinginn er fallegur fugl og er hér gestur vor og haust eins og blesgæsin. Hann fer til Norð-austur Grænlands þar sem hann verpir í klettum. Eftir að ungarnir klekjast er þeim fleygt niður á bersvæði fyrir neðan klettabeltin, því þar er henturgur gróður fyrir þá. En þar eru einnig refir, sem halda dýrðlega veislu. Þrátt fyrir það komast margir upp og er helsingjastofninn í einhverjum vexti nú.
Ég var dálítið spenntur þegar ég nálgaðist Vatnsdalinn. Það var spennandi að vita hvort álftin við Hnausahvísl, sem sumir kalla Vatnsdalsá, væri orpin. Jú þarna var hún komin á hreiður. Mér finnst alveg makalaust hve trygg þessi álft er við þennan varpstað. Hún verpti þarna jafnvel meðan á brúargerðinni stóð, og lét raskið ekki hamla sér. Hún á gott að eiga öruggt hreiðurstæði, það er meira en margar heiðargæsir geta sagt sem nú koma að sínum hreiðurstæðum á kafi í gruggugu vatni.
Það vilja allir eiga öruggt heimili, líka fuglar himinsins. Fuglarnir sækja yfirleitt á fyrri hreiðurstaði og röskum á þeim raskar lífi þeirra, líkt og okkar ef heimilið er horfið einhvern daginn þegar komið er heim.
Apríl og maí eru tvímælalaust skemmtilegustu mánuðirnir til að skoða fuglalífið. Förum út og njótum þess, þá lærum við að bera virðingu fyrir þessum duglegu og þrautseigu lífverum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2007 | 23:00
Nokkrir athyglisverðir punktar af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins
Það er alltaf athyglisvert að fylgjast með fréttaflutningi af landsfundum stjórnmálaflokkana. Að sjálfsögðu sperrir maður bæði augu og eyru þegar Sjálfstæðisflokkurinn er annars vegar.
Það verkur athygli að Davíð Oddsson mun ekki hafa verið á fundinum. Kannske er hann alveg hættur afskiptum af pólitík. Eða er hann í hörðum slag sem Seðlabankastjóri við að slást við efnahagstefnu síns gamla flokks.
Myndin sem birtist bak við Geir á forsíðu Morgunblaðsins á föstudaginn 13. apríl af af mjög áþekku landslagi og hann og félagar ákváðu að sökkva við Kárahnjúka. Þeir kölluðu það einskis nýtt urð og grjót. Þetta lítur út eins og mærð í hátíðarræðu, sem engin meining er bak við.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að stofna nýja þjóðgarða. Bíðum við, voru það ekki þeir sem aflýstu friðlýsingu Kringilsárrana og eyðilögðu þar með eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði á landinu. Er hægt að taka mark á svona loforðum. Hér er vert að minna á að Kárahnjúkavirkjun féll í umhverfismati en var þröngvað í gegn af ríkisstjórninni. Þar báru sjálfstæðismenn a.m.k. jafn mikla ábyrgð og framsóknarmenn.
Það vakti líka athygli þegar einhverjir landsfundarfulltrúar sem voru í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 voru að dáðst að því hve vel þingmenn hefðu unnið fyrir Flokkinn. Lögð var sérstök áhersla á að þeir væru starfsmenn Flokksins. Ég hélt að þingmenn ynnu fyrir þjóðina?
Og nú í kvöldfréttum ríkisútvarpsins stóð hæst að landsfundurinn hafði samþykkt ályktun í þá veru að leyfa bæri sölu víns og bjórs í matvöruverslunum. Einnig var í ályktuninni lögð sérstök áhersla á að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Það er einkennilegt að þetta baráttumál stóð upp úr að loknum landsfundi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2007 | 22:01
Hvað þýðir frestun?
Ég vil fagna því að sveitarstjórn Skagafjarðar skuli hafa frestað að setja virkjanirnar inn í aðalskipulagstillöguna.
Það vekur hins vegar athygli að það er fyrirhugað að endurhanna þessar virkjanir. Það má því alveg ljóst vera að þessi frestun er aðeins ætlað að vara fram yfir kosningarnar í vor. Í kosningabaráttunni framundan er öllum orðið ljóst að virkjanahugmyndir eru léleg söluvara.
Það er alveg ljóst að virkjanahugmyndir í Jökulsám Skagafjarðar eru því miður enn ljóslifandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2007 | 21:10
Eru Ómar og Margrét að tryggja áframhaldandi völd stóriðjuflokkanna?
Niðurstöður síðustu skoðunarkönnunar Carpacet benda til þess að tilkoma framboðs Ómars og Margrétar sé að tryggja áframhaldandi völd Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Eins og staðan er nú hafa þau ekki nægt fylgi til að ná kjörnum fulltrúum. Þau geta hins vega tryggt að næsta stjórn verði mynduð með minni hluta atkvæða.
Framboðið var sett til höfuðs Sjálfstæðisflokknum, en það er eini flokkurinn sem virðist hagnast á framboði Ómars og Margrétar. Sjálfstæðisflokkurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum við þetta brölt.
Kosningarnar í vor snúast að verulegu leyti um áframhald stóriðjustefnunnar og stórvirkjana með tilheyrandi náttúruspjöllum. Eftir kosningarnar í Hafnarfirði um síðustu helgi, kom í ljós mörg og mikil áform í þessa átt. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna kepptust við að hamra á frekari stóriðju og virkjunum. Þeir ætluðu sko ekki að taka mark á vilja kjósenda og ætla að finna allar leiðir til að víkja fram hjá þeim.
Nú í kvöld kom svo í ljós að í sömu könnun vilja um 60% kjósenda að staldrað verði við og stóriðjumálin tekin til endurskoðunar.
Á þessi vilji að endurspeglast á Alþingi, eða munu Ómar og Margrét koma í veg fyrir það. Það yrði sorgleg niðurstaða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2007 | 23:04
Léleg þjónusta Icelandair (Flugleiða)
Ég brá mér á fund til Finnlands, nánar tiltekið Helsinki, nú í vikunni. Ferðin var skipulögð af Flugleiðum og var flogið í gegn um Kastrup til og frá Helsinki. Allt gekk vel til Helsingi og fundurinn tókst mjög vel. Flugið frá Helsinki til Kastrup var á tilsettum tíma og reiknaði ég með að allt væri í lagi með farangurinn, því hátt í klukkutími leið frá lendingu þangað til við áttum að fara í loftið aftur.
Þegar komið var til Keflavíkur, fór ég náttúrulega í gegn um Fríhöfnina og svo að farangursböndunum. Þá kom í ljós að taskan mín var ekki með. Ég bölvaði í hljóði yfir því að hafa sýnt þá tillitsemi að hafa ekki tekið hana með í handfarangri. En þar sem mér hefur alltaf ofboðið að sjá allt það dót sem er troðið í farangurshirslurnar í flugvélunum, ákvað ég að senda mína tösku með öðrum farangri.
Mér var bent á að fara að ákveðnu borði og tilkynna töskuhvarfið. Þar var þá löng biðröð, þar sem aðeins ein stúlka var að afgreiða. Þar voru m.a. ferðafélagar mínir frá Helsinki og hafði einn þeirra ekki fengið tösku sína fyrr en á heimferðardaginn, því hún varð eftir í Stokkhólmi á leiðinni út.
Afgreiðslan gekk afar hægt og fólkið var að sjálfsögðu mjög pirrað. Þegar ég var loks kominn út í gegn um tollhliðið, kom í ljós að rútan til Reykjavíkur, sem ég ætlaði að taka, var löngu farin, og sú næsta ekki fyrr en eftir tvo tíma. Mér var tjáð af starfsmanni að ég gæti bara tekið leigubíl. Þarna biðu nokkrir útlendingar sem voru strandaglópar í flugstöðinni. Ég komst heim með kunningjum sem höfðu lent í sömu vandræðum.
Það er athyglisvert að rúturnar eru jú einnig reknar af Icelandair (Flugleiðum).
Töskuna mína fékk ég ekki fyrr en eftir sólarhring og ég hef fregnað að sumir höfðu ekki fengið farangur sinn tveim dögum seinna.
Það er greinilegt að flugfélagið verður að hysja rækilega upp um sig buxurnar í þessum þjónustumálum. Það að farangur fylgi ekki með úr tengiflugi skuli vera regla frekar en undantekning er hið versta mál. Það er líka afar vont mál að ekki skuli vera nægt starfsfólk til að sinna þessum málum í flugstöðinni. Ekk slær það á reiðina að standa uppi farlaus eftir svona þjónustu. Ég sárvorkenndi útlendingunum sem sumir voru komnir úr löngu flugi til landsins og stóðu farlausir á vellinum. Hvað skyldu þeir hugsa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2007 | 23:14
Á að leyfa ólöglegar framkvæmdir eftirá??
Sótt um nýtt virkjunarleyfi vegna Múlavirkjunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2007 | 23:31
Eru þjóðlendur þjóðareign
Undanfarna viku hefur hugtakið þjóðareign þvælst verulega fyrir í umræðunni um breytingu á stjórnarskránni. Hver lögspekingurinn á fætur öðrum hafa komið í fjölmiðla og bent á að þjóðin geti tæknilega ekki átt neitt því hún er ekki lögaðili. Í þessu sambandi er rétt að velta fyrir sér hver er munurinn á ríki og þjóð. Á þjóðin ríkið eða á ríkið þjóðina?? Eðlilegt að spurt er.
Hver á stofnanir á borð við Landspítala Háskólasjúkrahús, Ríkisútvarpið, Póstinn, Háskólann og fleiri stofnanir, er það ríkið eða þjóðin. Hingað til hafa Þingvellir verið taldir sem þjóðareign, sama má segja um Skaftafell, Hólastað og fleiri landeignir. En bíðið við þjóðin má ekki eiga þetta og hver á það þá, ríkið? Hver á ríkið?
Að undanförnu hefur ríkisstjórnin með fjármálaráðherra í broddi fylkingar staðið í málaferlum við bændur og aðra landeigendur. Í sumum tilfellum hafa þessir ráðamenn þjóðarinnar krafið landeigendur um verulegan hluta jarða sinna undir þeim formerkjum að þessi lönd skulu kallast þjóðlendur. Eiga þjóðlendur ekki að vera í eigu þjóðarinnar?? En þjóðin má ekki eiga neitt, en bændur eru lögaðilar og mega því eiga eitthvað, til hvers er þá barist? Er þetta kannske skýringin á að ríkisstjórnin ætlar að afhenda lögaðilanum Landsvirkjun nokkrar bitastæðar eignir, þar sem svo vill til að þar finnst einhver jarðhiti eða vatnsföll?
Eða eru þetta ekki bara allt saman ein stór tæknileg mistök?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)