29.5.2008 | 23:26
Að búa á jarðskjálftasvæði
Fyrir rúmu ári fluttum við hjónin á Selfoss. Ég skal játa að ég taldi ekki miklar líkur á sterkum jarðskjálfta á næstunni, enda ekki langt liðið frá þeim síðustu. Atburðir dagsins komu því í opna skjöldu. Við fengum þó yfir okkur dálitla skjálftahrinu í haust, en þar var ekkert í líkingu við skjálftana í dag.
Að vísu vorum við í Reykjavík í dag og fundum því mun minna fyrir skjálftunum en ella. Fyrstu fréttir voru svakalegar, þannig að ég kveið því að koma heim og sjá heimilið í rúst. Í samráði við Ingibjörgu, konu mína, fór ég austur á Selfoss. Að þessu sinni fór ég um Þingvöll og niður Grímsnes, því samkvæmt upplýsingum á RÚV var Suðurlandsvegur í sundur, Ölfusárbrú lokuð og sömuleiðis Óseyrarbrú. Svo upphaflega áætlaði ég að fara í gegn um Laugarás og niður Skeið. Á leiðinni var tilkynnt að Ölfusárbrú væri opin, þannig að best var að fara þá leið.
Við eigum góða nágranna sem höfðu litið á heimili okkar eftir skjálftann og hringdu síðan í mig og tjáðu mér að skemmdir væru minni en búast mátti við, en kisa væri týnd. Jú þegar heim var komið sást strax að skemmdir voru minni háttar. Einn glervasi í forstofunni hafði brotnað. Þessum vasa vildi konan mín henda, en ég þumbast við, svo nú er helsta ágreiningsmál okkar hjóna búið að vera. Ein mynd dottin niður og tveir geisladiskaskápar, auk þess höfðu nokkrar bækur hrunið úr hillum. Það var vel sloppið. Ég þakkaði jarðfræðingnum, konunni minni, fyrir að hafa rekið mig til að festa alla bókaskápana í vetur. Þeir höfðu ekki haggast.
En hvar var Alexandra, litla kisan? Litla stýrið fannst hvergi. Nágrannar mínir komu og hjálpuðu til við leitina. Við óttuðumst að hún hefði lent undir geisladiskunum og væri þar í klessu, en þar var ekkert blóð. Með góðri hjálp voru geisladiskunum raðað upp og skápunum komið fyrir. Ég hafði komist undan að festa þá í vetur. Til allrar hamingju fannst kisa ekki þar. Leitin virtist ekki ætla að bera árangur og vorum við farin að óttast að hún hefði sloppið út og væri farin út í buskan, þegar unga nágrannastúlkan hún Margrét, fann kisu úti í glugga. Þar var þetta litla skinn í greinilegu losti, en hvernig veitir maður kisu áfallahjálp? Hún vildi hvergi vera nema undir stólum og sófum. Þegar hún hætti sér undan þeim, skreið hún eftir gólfinu. Við hvern titring stökk hún undir næsta stól. Hún hafði greinilega vit á hvert væri öruggast að flýja við þessar aðstæður. Þessi æringi sem leikur venjulega við hvern sinn fingur er nú eins og hrædd mús.
Vonandi er nú það versta yfirstaðið. Við sluppum með skrekkinn, aðrir lentu í verulegu tjóni. Því fólki sendi ég mínar bestu kveðjur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.