25.7.2008 | 22:44
Fulla ferð áfram með álverin segir Þorgerður Katrín
Það setti óneitanlega hroll að mér við að hlusta á starfandi forsætisráðherra Þorgerði Katrínu í sjónvarpsfréttunum í kvöld. Hún var að svara þar áliti frá endurskoðunarfyrirtækinu Merril Lynch um íslensku bankanna og þau þrot sem að þeir væru að komast í. Samkvæmt Þorgerði verður þetta bara allt í lagi. Hún nefndi ýmis atriði eins og fjárlög sem verið væri að vinna að sem ætti að bjarga hlutunum. En hún klikkti út með að nefna stærstu voninar, sem ættu að bjarga efnahagnum og bönkunum, en það voru álverin í Helguvík og á Bakka.
Hafa stjónvöld ekki lært neitt af fylleríinu á Austfjörðum? Hverju hafa þær framkvæmdir bjargað? Áttu þær ekki að bjarga landinu frá þroti? Hvernig er staðan nú? Eru vextir og verðbólga ekki komin upp fyrir allt velsæmi? Eru náttúruspjöllin á Austurlandi ekki meiri en fólki var talin trú um? Er ekki verulegt fok úr lónstæði Hálslóns? Er ekki verulegt landbrot við ósa ánna í Héraðsflóa? Hafa ekki tún og engi á bökkum Lagarfljóts blotnað upp? Hvar eru öll afleiddu störfin? Eru ekki hundruð íbúða auðar og til sölu á Egilsstöðum og Reyðarfirði?
Með öðrum orðum hafa þessar framkvæmdir engu bjargað. Fólki fækkar á Austfjörðum eftir sem áður. En það sem er alvarlegast í allri uppbyggingu á áliðnaði hér er að við verðum háð aðeins einni tegund iðnaðar, sem rekinn er af örfáum stórfyrirtækjum. Viljum við setja öll okkar egg í álkörfuna og viljum við leggja allar okkar orkuauðlindir, með tilheyrandi spjöllum undir þennan eina iðnað. Viljum við verða háð stórfyrirtækjum á borð við Rio Tinto og Alcoa, sem þekkt eru fyrir hrottaskap víða um heim? Þau eru kannske bljúg nú en hvernig verða þau þegar þau hafa náð öllum tökum á efnahagslífi okkar. Eða eru þau kannske búin að ná þeim tökum og stjórna þeirri kreppu sem hér ríkir. Nú er sagt að álverð sé hátt, við virðumst ekki njóta þess. Eru þessi fyrirtæki nú þegar búin að taka völdin og stjórna öllu okkar efnahagslífi? Er Þorgerður Katrín aðeins strengjabrúða þeirra?
Við getum ekki treyst Þorgerði og hennar líkum fyrir stjórnartaumunum lengur. Við þurfum nýja og ferska stjórn sem getur sagt stopp við álrisana.
Sjá viðtalið við Þorgerði á eftirfarandi slóð.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397998/2
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.