Fé án hirðis eða hirðar án fjár

Það hefur verið framin bylting á Íslandi. Bankarnir hafa verið þjóðnýttir og efnahagskerfið er í rúst. Þetta lítur fyrst út sem að kommar hafa tekið hér völdin. En nei þeir sem stóðu að byltingunni voru ekki skeggjaðir náungar með alpahúfur og rússneska rifla, heldur jakkaklæddir gaurar á einkaþotum.

Atburðarásin síðustu 5 árin hefur verið með ólíkindum. Já það eru bara 5 ár síðan ríkisbankarnir voru seldir fyrir slikk. Þeim var bróðurlega skipt milli ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Strax við söluna var hrundið af stað þeirri atburðarrás sem við súpum illilega seyðið af í dag.

Fljótlega fór fólki að ofbjóða kaupréttarsamningar, ofurlaun og hátt líferni framámanna bankanna. En það var sussað niður með hagstæðum lánum. Já peningar virtust gersamlega flæða út úr þessum nýfrjálsu stofnunum. Nú átti að sýna hvað frelsi fjármagnsins þýddi. Hafin var útrás.

Útrásin þýddi að keypt voru hin og þessi fyrirtæki. Sum arðvænleg, en önnur ekki. Allt fyrir lánsfé. Mikilvægt var að hinir nýríku Íslendingar gætu haldið rúllettunni gangnadi, og þurftu þeir stöðugt að fjármagna sig með nýjum lánum til að greiða þau eldri. Íslenska þjóðarbúið varð mjög skuldsett.

Ekki höfðu landsfeðurnir miklar áhyggjur af skuldsetningunni, ríkissjóður hafði hagnast svo vel af sölu eigna að hann var nær skuldlaus. Þetta voru bara einhver fyrirtæki úti í bæ sem voru að safna skuldum. Aðvaranir erlendis frá voru teknar sem öfund og illgirni í garð hinna dugmiklu útrásarmanna. Fyrir rúmmun mánuði síðan fór eitt af þessum fyrirtækjum á hausinn, og þá hlakkaði í ákveðnum frammámanni þjóðarinnar,  um leið og hann rómaði hve íslensku bankarnir væru sterkir. Hálfum mánuði síðar varð þessi sami framámaður að jarðsyngja þá einn af öðrum.

Alvarlegur þáttur í þessu peningasukki sem átt hefur sér stað síðustu ár, er hve auðveldur aðgangur hefur verið að lánsfé, sérstaklega myntkörfulánum. Það var ótrúlegt hve margir létu blekkjast til að taka slík lán, jafnvel til að kaupa hluti í sömu fjármálastofnun. Allt var þetta gert í von um skjótfenginn gróða. Mér ofbauð ásóknin í stofnbréf sparisjóðanna, sem keypt voru á margföldu verði. Fyrir þau var oft greitt með lánsfé, sem sýnir hve innistæðulaust þetta kaupæði var. Einnig hve auðvelt var að kaupa dýra glæsibíla fyrir slík lán. Þarna kom í ljós hið undarlega hjarðeðli mannskepnunnar, þar sem fólk verður að geta veitt sér það sama og vinurinn eða nágranninn. Fólk fylgir einhverjum forystusauð í blindni.

Það er þó verulegur munur á mannlegum forystusauðum og þeim af sauðakyni. Sauðir eru gjarnan taldir heimskir, en þeir finna ávallt réttu leiðina. Hinir mannlegur forystusauðir sýna oft jafn mikið kapp en minni forsjá og geta því leitt sína hjörð fram af bjargbrúnum.

Forystusauðirnir í bönkunum nýttu sér kaupagleði þeirra sem keyptu hlutafé. Þessir fjármunir virðast nú vera gersamlega horfnir. Já hvað varð um alla þessa milljarða sem fólk lagði inn í bankana? Þessir fjármunir virðast hafa verið vel nýttir til að kosta öll veisluhöldin.

Fyrirhyggju skorti við einkavæðinguna. Engar skotheldar reglur voru settar. Eigendur bankanna gáta hegðað sér að vild með þeim árangri að skilja þjóðina eftir í þroti. Samfélagsleg ábyrgðartilfinning virðist ekki vera til.

Í mínum huga var aðeins einn stjórnmálaflokkur sem reyndi að hamla gegn þessari óráðsíu, en það voru Vinstri grænir. Þeir komu fram með mörg þingmál, og margs konar gagnrýni á framgang mála. En á þá var ekki hlustað fremur en fjölda erlendra álitsgjafa sem vöruðu við þróuninni.

Afleiðingin er sú að betla lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Líklega hefur aldrei áður þjóð sem á svo marga glæsibíla þurft að leita náðar hjá þessum sjóði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband