Er menntastig íslensku þjóðarinnar til skammar?

Fréttin um að menntastig íslensku þjóðarinnar væri með því lægsta sem þekkist í OECD-ríkjunum kom mér mjög á óvart. Við sem gortum okkur af bókmenntaarfi, góðri lestrarkunnáttu og góðu skólakerfi. Fréttin birtist í sjónvarpsfréttum RUV í kvöld. Tekið var mið af því hlutfalli sem lýkur prófi eftir grunnskólapróf. Þetta er alvarlegt mál og nú þurfa yfirvöld menntamála sannarlega að girða sig í brók og leita úrbóta. Þessi frétt kemur þegar þjóðin er farin að gleyma vondri útkomu úr svo kallaðri Pisa-könnun.

Það var því ánægjulegt að á sama tíma og þessi frétt var lesin í sjónvarpi voru Vinstri Grænir að flytja þingsályktunartillögur um að stofna háskólasetur á Selfossi annars vegar og á Akranesi hins vegar. Þær tillögur eru góð skref í rétta átt. Vonandi verða þær samþykktar, svo unnt verði að hefjast handa sem fyrst.


Allt fyrir Flokkinn!

Það vakti athygli mína í Silfri Egils í dag sá málflutningur sjálfstæðismannanna Illuga Gunnarssonar og Geirs H Haarde að þeir töluðu um hagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar hagsmunum almennings. Til dæmis sögðu þeir báðir að margumtalaður Vilhjálmur væri að gaumgæfa sín mál með hagsmuni Flokksins og svo eins og innan sviga (og borgarbúa).

Mér er spurn, fyrir hverja eru stjórnmálamenn að vinna? Séu þeir að vinna fyrst og fremst að hagsmunum eigin flokks, þá eru þeir jafnframt að vinnað að hagsmunum eigin flokksfélaga. Þá hljóta þeir sem eru ekki flokksbundnir þeim flokki og eru jafnvel í andstæðum flokkum að vera settir til hliðar. Það væri snjallt ef einhver tæki upp á því að kanna hvernig stöðuveitingum hefur verið varið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Hefur ekki flokkurinn (eða flokkskírteinið) æði oft verið tekið fram fyrir hæfni manna og þá um leið hagsmuni almennings?

Samfylkingarkonan Katrín Júlíusdóttir fór heldur flatt þegar hún ætlaði að færa rök fyrir að álver á Bakka við Húsavík samrýmdist Fagra Íslandi. Nú er bygging álvers í Helguvík komið á skrið. Stutt í fyrstu skóflustungu og opnun útboða á byggingunni. Allir vita að Sjálfstæðisflokkurinn rær þarna öllum árum. En stóra spurningin er, hvað ætlar Samfylkingin með Fagra Ísland og Græna netið að gera??? 


Hvern var Sveinn Andri að verja?

Það var kostulegt að hlusta á málflutning Sveins Andra í Kastjósinu í kvöld. Sveinn Andri er reyndar þekktastur í mínum huga fyrir að verja ýmsa misyndismenn og reyna að fá dóma yfir þeim mildaða. Einhvern veginn fannst mér hann vera á þeim buxunum í kvöld, þegar hann var að reyna að verja gerðir Sjálfstæðismanna í Borgarstjórn. Í gegn skein sú vissa að öll flokkssystkyn hans væru sek í þessu fræga REI - máli, en hans hlutverk var að fá fram vægan dóm. Þar tókst honum óhönduglega upp í kvöld.

Það er léleg vörn hjá Sveini að fara ekki rétt með staðreyndir málsins. Hann ætti að vita betur um orsakir þess að Svandís sat hjá við atkvæðagreiðslu um samruna REI og GGE. Einnig ætti hann að vita hverjir krukkuðu í listanum yfir það fólk sem átti að fá kaupréttarsamninga.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðismenn svari því, hvers vegna var allur þessi hraði á framgangi sameiningarmálsins í haust? Hverjir bjuggu til kaupréttarlistann? Af hverju þoldi hann ekki dagsljós? Hverjir áttu að græða og hve mikið? Hvers vegna er Sjálfstæðismönnum illa við orðið "græðgisvæðing"? Hvers vegna var hluti Ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja látinn til GGE sem nokkurs konar tannfé? Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í eignarhaldsmálum orkufyrirtækja og orkuauðlinda?

Vandamál Sjálfstæðisflokksins er stefna hans sjálfs, sem fólk er farið að sjá í gegn um. Vilhjálmur Þ var aðeins að framfylgja henni með framgöngu sinni í þessu REI - GGE máli. Hinir svokölluðu sexmenningar voru reiðubúnir að samþykkja allan gerninginn, þegar málið tók aðra stefnu.


Ef Svandís hefði ekki sagt stopp

Það er hollt fyrir alla sem eru að niðra Svandísi og aðra sem tóku slaginn í REI-málinu að rifja upp atburði haustsins. 

Hvert var málið að stefna í byrjun október? Hver var það sem reif í stýrið áður en í endanlegt óefni var komið. Það var búið að samþykkja samruna REI og GGE. Það var gert í einum hvelli til að unnt væri að tilkynna milljarðagróða fyrir FL-group á einhverjum eigendafundi úti í London til að bjarga því fyrirtæki.

Með öðrum orðum einkaaðilar voru búnir að festa klær sínar í eignir almennings sjálfum sér til framdráttar. Það var gert með samþykki allra í stjórn OR nema Svandísar. Hennar framgangur setti málið í þann farveg að öll einkavæðing og brask með þessar almenningseigur er slegin út af borðinu. Átti t.d. Bjarni Ármannsson ekki að græða heilar 500 milljónir strax á braskinu? Áttu ekki fleiri starfsmenn OR og REI að fá kaupréttarsamninga á gjafakjörum?

Var ekki lausn sexmenninga sjálfstæðismanna í borgarstjórninni að selja bæri REI sem fyrst til svokallaðra fjárfesta á útsölu.

Það er skiljanlegt að fólk vilji sjá blóð renna, en það er ekki hlutverk þessa stýrihóps. Nú á títtnefndur Vilhjálmur að verða borgarstjóri eftir ár, vel verndaður af bakvarðarsveit sinni. Svandís og Dagur eru í minnihluta og hafa því ekki afl til að koma í veg fyrir það.

Þetta mál er bæði í rannsókn hjá innri endurskoðun Reykjavíkur og hjá Umboðsmanni Alþingis. Frá þeim stofnunum ætti að koma hlutlaust álit.

Það sem gerir málið enn flóknara er að Þegar það hófst voru Sjálfstæðismenn í meirihluta og Vilhjálmur borgarstjóri, síðan tók við vinstri meirihluti í 100 daga. En nú þegar lokahönd var lögð á skýrsluna var sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn til valda. Það er nú komið fram hvers vegna, það var svo mikilvægt fyrir sjálfstæðismenn að komast aftur til valda. Auðvitað til að fela sem mest af óþægilegum staðreyndum í skýrslunni.

Ekki má gleyma að mikið hefur unnist í þessu máli og komin önnur sýn á einkavæðingu og brask með almennigseigur. Upp á það hafa allir borgarfulltrúar skrifað. Vonandi verður þetta til þess að gengið verður varlegar um eigur almennings en ætlunin var í kring um REI.


Í tilefni bankaráns í Lækjargötu

Molly MalloneMyndin hér til hliðar er af styttu af Molly Mallone, írskri þjóðsagnapersónu.

Fyrir aldarfjórðungi stundaði ég nám á Írlandi í bæ sem heitir Ballinrobe. Bærinn er vestarlega á Írlandi, með íbúafjölda 2 - 3 þúsund manns. Þar voru m.a. 3 bankaútibú. Á þeim tíma var IRA og fleiri skæruliðasamtök enn sterk. Á þeirra vegum voru rán mjög algeng. Bankar, pósthús og fleiri peningastofnanir voru rænd. Oftast voru þar vel vopnaðir menn að verki. Þessi óöld leiddi til þess að afgreiðsla þessara stofnana var skermuð af með skotheldu gleri. Afgreiðslan fór fram í gegn um hátalara og notuð var skífa til að koma viðskiptunum til skila. Peningar voru fluttir í brynvörðum bílum. Mennirnir voru gjarnan vopnaðir með hjálma og í skotheldum vestum.

Óneitanlega vonaðist ég til að ástandið yrði aldrei þannig á Íslandi. Það var allavega notalegt að koma heim og geta tekið í höndina á bankagjaldkeranum. Það var ekki oft sem minnst var á Ísland í írskum fjölmiðlum. Á þessu eina og hálfa ári komst það aðeins tvisvar í fréttir, en þá var framið bankarán í Landsbankaútibúinu á Laugarvegi. Það vakti talsverða athygli, því í fréttinni var sérstaklega tekið fram að þetta væri fyrsta vopnaða bankaránið í þessu friðsæla landi. Svo komst Ísland í fréttir þegar Írar möluðu landslið okkar 3 - 0 á Laugardalsvelli.

Nokkrum árum eftir að ég lauk náminu á Írlandi kom ég þangað aftur í heimsókn. Á rölti mínu um Ballinrobe um það leyti þegar bankastarfsfólk var að fara til vinnu sinnar, sá ég óeinkennisklædda lögreglumenn í bíl fyrir utan bankana. Lögreglumennirnir vor vel vopnaðir, með léttar hríðskotabyssur. Þetta var talsvert áfall, er ástandið virkilega svona að það þurfi vopnaða lögreglu til að verja starfsfólk bankanna á leið til vinnu sinnar.

Málið í dag upplýstist fljótt, svo vonandi verður ástandið ekki svo slæmt hér.


Hætta á kali í túnum

Axhnoðpuntur á Hólum í HjaltadalVið þau veðurskilyrði sem verið hafa í haust og í vetur á sunnanverðu landinu er töluverð hætta á kali í túnum. Veðurfarið hefur verið skólabókardæmi um þessa hættu.

Frá ágúst til jóla voru miklar rigningar, haustið var dimmt og blautt. Við slík skilyrði ná grösin ekki að búa sig nægilega vel undir veturinn (harðna). Grösin þurfa m.a. nokkuð sólskin á haustin til þessa vetrarundirbúnings. Að auki gerði þessi mikla úrkoma það að verkum að jörðin er vatnssósa. Því er ekki mikið loft og þar með súrefni í jarðveginum. Þannig var staðan fram að jólum.

Á jóladag snjóaði, en sá snjór bráðnaði milli fyrir nýjár, sem gaf enn meira vatn í jörðina. Síðan upp úr áramótum byrjaði að snjóa og það snjóaði mikið í nokkra sólarhringa. Þriðjudaginn 22. janúar gerði blota í nokkra klukkutíma. Snjórinn krapaði og fraus síðan, líklega mynduðust svell niður við jörð. Næstu daga snjóaði meira, en síðast liðinn sunnudag gerði aftur þíðu í einn dag. Aðeins hluti snjósins bráðnaði og er nú að frjósa aftur.

Næstu daga er útlit fyrir frost og þá er hætt við að enn meiri svell myndist undir snjónum.

Nú eru því komnar aðstæður þar sem veruleg hætta er á kali. Mikið vatn í jörðu og lítið loft, mikill snjór og endurteknir blotar og frost þess á milli gera lífið erfitt fyrir grösin sem híma í súrefnisleysi undir svellunum.

En það er ekki bara súrefnisleysið sem drepur, við þessar aðstæður fara ýmsar kuldakærar gerjunarlífverur af stað. Þær skila ýmis eiturefni út í umhverfi sitt t.d. alkóhól og sýrur eins og smjörsýrur, sem geta drepið grös og aðrar lífverur undir svellunum. 

Þessi skaðlegu áhrif eru lítil vari þetta ástand í minna en tvær vikur, en eftir það fara grösin að deyja og kalskellur að myndast í túnum. Vari þetta ástand í mánuð eða meira leitar smjörsýra og önnur óæskileg efni út í gegn um svellin og geta valdið óþef, sem hefur verið nefndur kallykt.

Vonandi kemur þíða áður en ástandið verður svo alvarlegt.

 


Farsinn í Reykjavík

Maður hefur fylgst með af forundran þeirri atburðarrás sem gerðist í höfuðborginni okkar í gær. Það er með ólíkindum hve reiðubúnir menn eru að stinga hvern annan í bakið til að komast til metorða. Ætli hnífar séu ekki uppseldir í Reykjavík.

Eftir nöturlega útreið í haust þar sem borgarfulltrúar íhaldsins stungu foringja sinn í bakið og klúðruðu til allrar hamingju meirihlutasamstarfinu við Framsókn, hafa þeir sleikt sár sín. Blóðbragðið hefur fyllt þá hermdarþorsta. Þeir voru til í að leggja allt í sölurnar til að hrifsa völdin aftur. Þeir vissu sem er að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Því þurfti að einangra hann og finna veikleika hans. Jú að vera borgarstjóri í eitt ár var það agn sem hreif. Svona vinna menn ekki.

Útbúinn var listi með almennri stefnuskrá. Og allir voru ánægðir eða hvað.

Eftir viðbrögðum almennings sem spurt var álits á framvindunni eru hvorki húrrahróp nér önnur fagnaðarlæti yfir þessum tíðindum. Fólk hugsar með hrolli til þess að Villi nær aftur völdum í borginni. Það var svo sem enginn gleðisvipur á borgarfulltrúum íhaldsins í gær þegar þeir stóðu fyrir aftan þá Ólaf og Villa. Svipur þeirra og augnarráð var ósköp líkur þeim sem þau settu upp á blaðamannafundinum í haust fyrir utan heimili Villa. Já það var eins og þau væru öll með hnífasett í erminni tilbúin að stinga. Það er ekki útlit fyrir traust samstarf á þessum bæ.

Ég spái þessum meirihluta stuttu lífi og sá ágæti meirihluti sem nú er að fara frá verði endurvakinn áður en langt um líður. Þessi nýji mætir það miklilli andstöðu almennings og það er með hundshaus sem þessi meirihluti er settur fram. Hefnd getur verið sæt, en líka súr. Í þessu tilfelli verður hún súr.


Hmmm.... Ekki móðga Hofsósinga

Neisti er á Hofsósi. Grin Hvöt er á Blönduósi!!!

 

 


mbl.is Vanda tekur við Breiðabliki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnsréttindasamningur við Landsvirkjun í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag

Það var athyglisvert að hlusta á utandagskrárumræður á Alþingi í dag. Álfheiður Ingadóttir spurði fjármálaráðherra Árna Mathiesen um álit Ríkisendurskoðunar á samningi um framsal vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár til Landsvirkjunnar. Í umræðunum tóku þátt tveir fulltrúar frá hverjum flokki. Í umræðunni staðfestist samstaða stjórnarflokkanna í þessu máli. Það var lítill munur á málflutningi Össurar Skarphéðinssonar og Lúðvíks Bergvinssonar annars vegar og Árna og Kjartans Ólafssonar hins vegar. Sama má segja um málflutning Frjálslyndra og Framsóknar. Guðni Ágústsson var náttúrlega að verja sínar gerðir. Öllum þessum var greinilega illa við þessa fyrirspurn, hún kom við einhver kaun, sem núverandi og fyrrverandi ráðherrar vildu helst flýja.

Ég saknaði þess að hvorki Björgvin G Siguðsson eða Þórunn Sveinbjarnardóttir tóku þátt í umræðunni. Þau hafa fundað með sunnlendingum og sagst vera á móti þessum virkjunum. Það kann að vera að þau séu á móti þeim þegar þau eru fyrir sunnan Hellisheiði, en á Alþingi greiða þau atkvæði með.

Kjartan Ólafsson hélt reyndar stíft fram það að það væru bara Vinstri Grænir sem væru á móti umræddum virkjunum og væru að rugla sunnlendinga í ríminu. Örugglega er það rétt hjá honum. Það kom líka mjög skýrt fram í máli þeirra Álfheiðar og Atla Gíslasonar.


Góð umræða feminista í Silfrinu í dag

Það var gott og gaman að hlusta á málflutning þeirra Katrínar Önnu, Drífu og Sóleyjar í Silfrinu í dag, enda eru þær öflugar talskonur gegn kynjamisrétti. Egill var líka óvenju kurteis og málefnalegur og leyfði umræðunni að fljóta. Þarna var farið vítt yfir sviðið allt frá launamisrétti til ofbeldis. Það er alveg ljóst af umræðu síðustu vikna að málflutningur feminista hefur komið við kaun einhverra. Það vekur talsverðan óhug þegar hótað er ofbeldi til að reyna að þagga niður í umræðunni. Barátta feminista er fyrir jafnrétti og gegn ofbeldi. Ég held að flestir ættu að geta skrifað undir það.

Umræðan sem varð um lit á klæðnaði nýbura var mjög athyglisverð. Þar kom m.a. fram að þessi siður er tiltölulega nýr af nálinni og ætti því að vera auðvelt að taka upp nýja siði í þessum efnum.

 Annars kemur mér í hug saga sem gerðist upp úr 1970. Þá voru rauðsokkur að stíga fram á sjónarsviðið sem hreyfing. Eitt af baráttumálum þeirra þá var að nöfn giftra kvenna yrði sett með heimilisfangi og símanúmeri í símaskrána til jafns við eiginmennina. Þetta þótti á þeim tíma mjög öfgafull og fáránleg krafa. Ég man eftir eldri konu sem hneykslaðist mjög á þessari kröfu. En svo rétt fyrir jól langaði henni til að senda jólakort til vinkonu sinnar, sem hún hafði kynnst á húsmæðraorlofi. Þegar til átti að taka var hún búin að týna heimilisfangi vinkonunnar og var hálf eyðilögð yfir því. Því kom dálítið skrýtinn svipur á hana þegar bóndi hennar spurði, hvort hún vissi hvað eiginmaður hennar héti. Ég held að þessi kona hafi þá farið að hlusta á málflutning rauðsokka af meiri athygli en áður.

Þannig geta þau baráttumál sem reynt er að púa niður í dag verið orðin sjálfsögð og staðreyndir innan fárra ára. En það þarf að berjast fyrir þeim ef sigur á að vinnast. Silfrið í dag var áfangi á þeirri braut.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband