1. maí - til hamingju með daginn

Fyrsti maí er sannkallaður hátíðisdagur launafólks. Þá safnast það saman og strengir heit í kjarabaráttunni. Kjarabarátta hættir aldrei, það þarf sífellt að vinna ný réttindi og því miður verja þau sem fengin hafa verið með harðri baráttu, jafnvel verkföllum. Verkföll eru enn mikilvæg baráttutæki í kjarabaráttu, en þau eru jafnframt vandasöm. Að jafnaði er þeim ekki beitt nema viðræður og aðrar baráttuaðferðir hafa ekki borið ásættanlegan árangur.

Í kjarabaráttu er samstaðan það afl sem öllu ræður um úrslit samninga. Án hennar verður árangur samninga rýrari en ella. Það er ný aðferð vinnuveitenda að gera einstaklingssamninga við launþega sína. Þeir eru trúnaðarmál, og oft er viðkomandi sagt að hans samningur sé sá besti, en kjafti hann frá verði honum sagt upp eða kjör hans rýrð. Einnig hafa vinnuveitendur beitt einstaklingssamtölum í kjaraviðræðum, og þá reynir verulega á siðferðisþrek og viljastyrk launþegans.

Skurð og svæfingahjúkrunarfræðingar á Landspítalanum stóðust öll þessi próf með prýði. Sú einarða samstaða sem þær sýndu á síðustu vikum leiddi til algers sigurs þeirra. Þessi barátta hefur aukið virðingu fyrir þessu fólki, ekki aðeins sem launþegum, heldur líka sem fagfólki. Það er gott að vita af þessu siðferðilega sterka fólki í þessum ábyrgðarmiklu störfum. Það vekur mikla athygli að þessi barátta var ekki um hækkun launa heldur að viðhalda vinnufyrirkomulagi.

Til hamingju hjúkrunarfræðingar, ég tek ofan fyrir ykkur öllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Því miður heyrir samstaða til undantekninga nú orðið. Það er af sem áður var... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.5.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Því miður er baráttan í dag að hluta til fólgin í að verja þau réttindi og velferðarkerfi sem komið hefur verið á. Því er samstaða launafólks mikilvæg. Í skjóli samstöðuleysis er mögulegt að plokka þetta smám saman af.

Kristjana Bjarnadóttir, 1.5.2008 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband