7.7.2008 | 16:55
Þriggja gljúfra stíflan í Kína ógnar fiskimiðum í Austur Kínahafi
Vatnsaflsvirkjunum fylgja nær alltaf miðlunarlón. Við gerð þeirra fer land á kaf undir vatn og þar með landsvæði sem ekki verða bætt. Lónin hafa mikil sýnileg áhrif á landslag og náttúrufar. Eðlilega eru þessi mannvirki því mjög umdeild og vekja andúð. Minna er aftur á móti fjallað um áhrif stíflanna og vatnsmiðlunarinnar á náttúru og lífríki neðan stíflanna. Fáir hafa lýst áhyggjum yfir áhrifum þessara virkjana á lífríki sjávarins fyrir ósum fljótanna. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2008 | 21:48
Bankarnir heimta sitt
Ég eins og margir fleiri fjárfesti í bíl í ársbyrjun 2006. Til að létta mér lífið ákvað ég að taka lán á góðum kjörum, sem var ekkert mál. Reyndar var bíllinn bæði ódýr og sparneytinn, en samt taldi ég gott á þessum tíma að nýta mér vildarkjörin sem í boði voru. Lánið var kr. 750.000 til 5 ára og nam um helmingi af kaupverðinu. Vextir voru ekki nema 5,8%, en vísitala bættist við. Fyrsta afborgun var ekki nema kr. 16.397, þar af var afborgun af nafnverði kr. 12.295 og vextir kr. 3.622. Málið leit vel út.
Nú hafa vextirnir hækkað heldur betur og eru komnir í 10,35% og verðbætur af láninu sem er um helmingur af upphaflegri upphæð kr. 6.662,-. Vextir og verðbætur nema því nú samtals 26,5%. Nú er afborgun af nafnverði sú sama og í upphafi, vaxtagjöldin hafa hækkað upp í kr. 4.266,- og afborgun verðbóta kr. 2.693,-. Afborgun alls er því kr. 19.449,-.
Afborgunin hefur því hækkað um rúmmar þrjú þúsund krónur vegna hækkunar vaxta og verðbóta og höfðustóll lánsins lækkar ekki nema um rúmmar átta þúsund krónur þrátt fyrir 12 þús. króna afborgun.
Í mínum augum er þetta ekkert annað en okur. Vextir og verðbætur af umræddu láni hafa hækkað úr 5,8% í 26,5% eða yfir 20%. Bankarnir eru farnir að heimta hærri vexti en vanskilavexti af láni sem alltaf hefur verið í skilum. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni þegar hinn skuldugi almenningur er krafinn um að herða sultarólarnar og spara, en bankarnir heimta sitt og meira til.
Er ekki kominn tími til að grípa í taumanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2008 | 13:30
Fréttamat
Það er eðlilegt að koma og afdrif þessa hvítabjarnar veki mikla athygli. Hvítabirnir eru í verulegri hættu vegna hlýnunar og skerðingar á búsvæði þeirra. Það er virkileg þörf á að leita svara við því, hvers vegna þessi bangsi kom til landsins. Er t.d. hætta á að fleiri kunni að þvælast til landsins á næstunni án þess að hafís verði landfastur.
Hins vegar er fréttamatið dálítið undarlegt. Fjölmiðlar blása út um þennan bangsa, en hins vegar skilst mér að næstu nágrannar okkar hafi lítið frétt af jarðskjálftunum sem riðu yfir á dögunum. Alla vega hefur fólk sem ég hef verið í sambandi við á Norðurlöndunum ekkert vitað um þá atburði, sem þó eru mun alvarlegri.
Hvítabjarnarmál vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2008 | 11:42
Eru hvalveiðar sjálfbærar?
Það hefur verið ítrekað sagt að okkur ber að nýta hvali á sjálfbæran hátt. En er það svo? Samkvæmt upplýsingum sem ég hef sannfrétt þá lítur sjálfbærnireiknidæmið þannig út:
Hver langreyður gefur af sér um 15 tonn af kjöti og 3 tonn af rengi samtals um 18 tonn.
Til að ná í þessi 18 tonn af afurðum, eyddi Hvalur 9, 60 - 70 tonnum af olíu, já 3-4 sinnum meira en afurðirnar. Við brennslu á þessari olíu losna um 200 tonn af koldíoxíði. Sem sagt til að ná í eitt kg af hvalkjöti og rengi losna yfir 10 kg. af koldíoxíði. Síðan þarf að vinna og frysta kjötið og senda það með flugi til Japan. Það kostar líka orku og losun á koldíoxíði.
Svo þarf að urða úrganginn.
Því er eðlilegt að spyrja: Hvar er sjálfbærnin í þessum veiðum?
Langreyðakjöt sent til Japans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 23:26
Að búa á jarðskjálftasvæði
Fyrir rúmu ári fluttum við hjónin á Selfoss. Ég skal játa að ég taldi ekki miklar líkur á sterkum jarðskjálfta á næstunni, enda ekki langt liðið frá þeim síðustu. Atburðir dagsins komu því í opna skjöldu. Við fengum þó yfir okkur dálitla skjálftahrinu í haust, en þar var ekkert í líkingu við skjálftana í dag.
Að vísu vorum við í Reykjavík í dag og fundum því mun minna fyrir skjálftunum en ella. Fyrstu fréttir voru svakalegar, þannig að ég kveið því að koma heim og sjá heimilið í rúst. Í samráði við Ingibjörgu, konu mína, fór ég austur á Selfoss. Að þessu sinni fór ég um Þingvöll og niður Grímsnes, því samkvæmt upplýsingum á RÚV var Suðurlandsvegur í sundur, Ölfusárbrú lokuð og sömuleiðis Óseyrarbrú. Svo upphaflega áætlaði ég að fara í gegn um Laugarás og niður Skeið. Á leiðinni var tilkynnt að Ölfusárbrú væri opin, þannig að best var að fara þá leið.
Við eigum góða nágranna sem höfðu litið á heimili okkar eftir skjálftann og hringdu síðan í mig og tjáðu mér að skemmdir væru minni en búast mátti við, en kisa væri týnd. Jú þegar heim var komið sást strax að skemmdir voru minni háttar. Einn glervasi í forstofunni hafði brotnað. Þessum vasa vildi konan mín henda, en ég þumbast við, svo nú er helsta ágreiningsmál okkar hjóna búið að vera. Ein mynd dottin niður og tveir geisladiskaskápar, auk þess höfðu nokkrar bækur hrunið úr hillum. Það var vel sloppið. Ég þakkaði jarðfræðingnum, konunni minni, fyrir að hafa rekið mig til að festa alla bókaskápana í vetur. Þeir höfðu ekki haggast.
En hvar var Alexandra, litla kisan? Litla stýrið fannst hvergi. Nágrannar mínir komu og hjálpuðu til við leitina. Við óttuðumst að hún hefði lent undir geisladiskunum og væri þar í klessu, en þar var ekkert blóð. Með góðri hjálp voru geisladiskunum raðað upp og skápunum komið fyrir. Ég hafði komist undan að festa þá í vetur. Til allrar hamingju fannst kisa ekki þar. Leitin virtist ekki ætla að bera árangur og vorum við farin að óttast að hún hefði sloppið út og væri farin út í buskan, þegar unga nágrannastúlkan hún Margrét, fann kisu úti í glugga. Þar var þetta litla skinn í greinilegu losti, en hvernig veitir maður kisu áfallahjálp? Hún vildi hvergi vera nema undir stólum og sófum. Þegar hún hætti sér undan þeim, skreið hún eftir gólfinu. Við hvern titring stökk hún undir næsta stól. Hún hafði greinilega vit á hvert væri öruggast að flýja við þessar aðstæður. Þessi æringi sem leikur venjulega við hvern sinn fingur er nú eins og hrædd mús.
Vonandi er nú það versta yfirstaðið. Við sluppum með skrekkinn, aðrir lentu í verulegu tjóni. Því fólki sendi ég mínar bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2008 | 22:51
Eru eldri borgarar á Þingeyri að knésetja heilbrigðiskerfið?
Fréttin um níræðu konuna á Þingeyri í sjónvarpsfréttunum í kvöld var í senn óhugguleg og athyglisverð. Í sumar á semsagt að spara í heilbrigðismálum með því að flytja TVO aldraða borgara af dvalarheimili sínu á Þingeyri til Ísafjarðar meðan á sumarleyfum starfsfólks stendur. Ástæðan, sparnaður! Það er tap á heilbrigðiskerfinu og þessir tveir einstaklingar eiga að bjarga því, ef ég skildi fréttina rétt.
Þetta er fólk sem hefur búið þarna um langan tíma. Þau hafa lagt sitt til samfélagsins og óska þess heitast að njóta öryggis og þjónustu í ellinni. Það er sorglegt að heilbrigðisyfirvöld skuli sjá þann kost vænstan til að bjarga rekstrinum að skapa hjá þessu fólki óöryggi og kvíða. Þetta fólk á annað og betra skilið.
Hér er enn eitt dæmið um misskiptinguna í þjóðfélaginu, sem sýnir að það þarf að stokka upp spilin og gefa upp á nýtt til að tryggja m.a. þessu fólki eðlilega þjónustu. Það er rangt að tala um þetta fólk sem peningalegan bagga á heilbrigðiskerfinu, eins og gefið var til kynna í fréttinni.
Fréttina má finna á vef RÚV slóðin er http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397919/9
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2008 | 13:46
1. maí - til hamingju með daginn
Fyrsti maí er sannkallaður hátíðisdagur launafólks. Þá safnast það saman og strengir heit í kjarabaráttunni. Kjarabarátta hættir aldrei, það þarf sífellt að vinna ný réttindi og því miður verja þau sem fengin hafa verið með harðri baráttu, jafnvel verkföllum. Verkföll eru enn mikilvæg baráttutæki í kjarabaráttu, en þau eru jafnframt vandasöm. Að jafnaði er þeim ekki beitt nema viðræður og aðrar baráttuaðferðir hafa ekki borið ásættanlegan árangur.
Í kjarabaráttu er samstaðan það afl sem öllu ræður um úrslit samninga. Án hennar verður árangur samninga rýrari en ella. Það er ný aðferð vinnuveitenda að gera einstaklingssamninga við launþega sína. Þeir eru trúnaðarmál, og oft er viðkomandi sagt að hans samningur sé sá besti, en kjafti hann frá verði honum sagt upp eða kjör hans rýrð. Einnig hafa vinnuveitendur beitt einstaklingssamtölum í kjaraviðræðum, og þá reynir verulega á siðferðisþrek og viljastyrk launþegans.
Skurð og svæfingahjúkrunarfræðingar á Landspítalanum stóðust öll þessi próf með prýði. Sú einarða samstaða sem þær sýndu á síðustu vikum leiddi til algers sigurs þeirra. Þessi barátta hefur aukið virðingu fyrir þessu fólki, ekki aðeins sem launþegum, heldur líka sem fagfólki. Það er gott að vita af þessu siðferðilega sterka fólki í þessum ábyrgðarmiklu störfum. Það vekur mikla athygli að þessi barátta var ekki um hækkun launa heldur að viðhalda vinnufyrirkomulagi.
Til hamingju hjúkrunarfræðingar, ég tek ofan fyrir ykkur öllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2008 | 20:46
Hér ber margt að varast
Hér er verið að opna leið fyrir ferskar kjötvörur til landsins. Hér ber að hafa margt í huga:
Um nokkurn tíma hefur verið leyft að flytja inn frosið kjöt. Frysting drepur að verulegu leyti örverur sem kunna að leynast í kjötinu. Þessar örverur sem sumar eru sjúkdómsvaldandi geta borist í ófrystu kjöti. Suða á að drepa sjúkdómsvaldandi örverur, nema riðu. Riða getur borist með öllu kjöti með alvarlegum afleiðingum.
Sem dæmi hættur þessu samfara telja Kanadamenn að ein pylsa hafi borið með sér gin og klaufaveiki til Kanada og valdið þar verulegu tjóni. Annað dæmi er að Japanir telja sig hafa fengið kúariðu með gervimjólk frá Evrópu, en í mjólkinni var m.a. nautgripafita.
Það er sagt að með innflutningnum eigi að berast örugg vottorð um sjúkdómahættu. Það kann vel að vera, en ein mistök í þessum efnum geta orðið dýrkeypt. Vegna einangrunnar sinnar í aldir eru íslensku húsdýrin viðkvæmari fyrir sjúkdómum en dýrastofnar í nágrannalöndunum, því geta aðkomnir sjúkdómar orðið að enn alvarlegri faröldrum en þekkist erlendis. Fyrir nokkrum árum kom upp flensa í hrossum, sem varð að faraldri. Enginn veit með hvaða hætti smitið barst til landsins, en tjónið varð verulegt, þar sem mörg hross drápust og önnur urðu mjög veik.
Þetta er líka stór spurning fyrir matvælaöryggi í landinu, því innfluttar búfjárafurðir munu keppa við þær innlendu og með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Það er eðlilegt að mjólkurbú og kjötvinnslufyrirtæki berjist gegn innflutningi, því það hlýtur að rýra afkomumöguleika þeirra. Það eru þúsundir fólks starfandi við úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þessi starfsemi er víða kjölfesta í bæjum um land allt og byggir á þeirri framleiðslu sem er nú. Fari þessi fyrirtæki halloka, verður atvinnu þessa fólks stefnt í voða. Hvað á að taka við? Álver?
Vilja ekki innflutning á fersku kjöti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2008 | 18:53
Formaður Landverndar kosinn í varastjórn Landsvirkjunar
Á vef Landsvirkjunar http://www.lv.is/ er greint frá nýrri stjórn og varastjórn sem kjörin var í dag. Verulega athygli vekur að formaður Landverndar, Björgólfur Thorsteinsson, er orðinn fyrsti varamaður í stjórn Landsvirkjunar.
Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur
Páll Magnússon, bæjarritari
Björgólfur Thorsteinsson
Katrín Ólafsdóttir
Um leið og ég óska Björgólfi velfarnaðar í þessu nýja starfi get ég ekki sem félagsmaður í Landvernd fallist á að hann sem varastjórnarmaður í Landsvirkjun geti gengt trúnaðarstörfum fyrir Landvernd. Björgólfur situr nú á miðju kjörtímabili sem er tvö ár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 21:46
Nú skulu námsmenn borga fyrir stríðsleiki ríkisstjórnarinnar
Stofnun varnarmálaskrifstofu hefur vakið athygli mína á undanförnum vikum. Það er óneitanlega undarlegt að fylgjast með Ingibjörgu Sólrúnu knýja fast á um þetta mál. Nú hljómar orðið "skrifstofa" mjög sakleysislega. Ímyndin er nokkur herbergi með skrifborð, tölvur og hillur. En þegar kostnaðurinn nemur um 1,5 milljarði króna í byrjun, sem áreiðanlega er stórlega vanmetinn breytist ímyndin allverulega. Þessi skrifstofa á nefnilega standa fyrir stríðsleikjum erlendra dáta hérlendis með tilheyrandi spjöllum. Hvar er hættan? Hverjir ætla að ráðast á okkur? Það verða áreiðanlega margar þjóðir fyrir barðinu á innrásarherjum áður en að okkur kemur. Einnig á varnarmálaskrifstofan að taka þátt í hernaðarbrölti með "vinum" okkar í NATÓ. Kallar ekki einmitt slíkt brölt á hryðjuverk? Besta leiðin til að forðast þau er að halda sig fjarri stríðsátökum. Var ekki Samfylkingin á móti slíku hernaðarbrölti fyrir kosningar?
Þetta brölt er dýrt og krefur ríkissjóð um milljarða. Hverjir eiga að greiða kostnaðinn? Jú okkar ágæta ríkisstjórn hefur fundið feita matarholu, NÁMSMENN. Nú er umræðan farin að snúast um skólagjöld á háskólastiginu. Það hefur verið stolt okkar að geta veitt ókeypis menntun. Nú virðist eiga að fara að fórna því á altari hernaðarhyggju. Gegn því hljótum við að berjast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)